144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[11:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar þetta mál kom inn í þingið var það fullkomlega ótækt til samþykktar. Eftir breytingar sem við náðum að knýja fram í meðförum þingsins urðu á því miklar umbætur.

Við munum sitja hjá við endanlega afgreiðslu þessa máls. Ræður því tvennt, annars vegar það sem ég nefndi áðan um breytt viðhorf sem hafa komið fram í nýlegum úrskurðum og dómum á síðustu mánuðum sem ekki hefur gefist færi á að ræða til fulls á vettvangi atvinnuveganefndar, þá sérstaklega niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA og úrskurði úrskurðarnefndar.

Hitt sem við horfum auðvitað til er sú staðreynd að við erum að glíma við stjórnarmeirihluta sem hefur sýnt mikla ófyrirleitni í ásælni gagnvart miðhálendinu, rangtúlkar og afbakar lagaheimildir þvers og kruss til að geta lagt fram, þvert á lög og réttan framgang, tillögur um virkjanir við Skrokköldu og Hagavatn og rýfur þar með það sem við hefðum viljað sjá sem væri (Forseti hringir.) víðtæk samstaða um miðhálendið sem verndarandlag í uppbyggingu raforkukerfisins.