144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[11:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við vinstri græn getum ekki stutt þetta mál eins og það er miðað við það að ekki hafi verið tekið tillit til þeirrar breytingartillögu sem var lögð fram og kynnt áðan. Vissulega er rétt að ýmislegt gott hefur náðst fram eins og á að gera þegar lýðræðisleg vinna fer fram, að minni hlutinn hafi áhrif á mál. Þó að minni hlutinn komi ekki endilega til með að samþykkja málin á endanum er eðlilegt að hann hafi áhrif.

Við vinstri græn teljum enn gengið of nærri skipulagsvaldi sveitarfélaga, að ekki sé neinn samráðsvettvangur við undirbúning og vinnu við kerfisáætlun, að flutningsfyrirtæki hafi allt of mikla yfirburðastöðu og að ekki sé tekið nægt tillit til umhverfissjónarmiða, nýfallins hæstaréttardóms og EFTA-álits. Því miður virðist mér Landsnet á fullu að undirbúa línulögn yfir Sprengisand. Annars hefðu menn tekið tillit (Forseti hringir.) til þess að bíða fram á næsta haust með að fjalla um þessi mál þangað til þetta kæmi í hendur Alþingis.