144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[15:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðuna og yfirferð hennar yfir frumvarpið. Mig langar að byrja á því að taka það fram að við höfum sama skilning á því hvernig beri að skilja það sem hér er lagt til. Það hefur verið svolítill ruglingur í umræðunni hér í dag, hefur mér fundist, um það hvað sé verið að leggja til. Ég hef á því nákvæmlega sama skilning og hv. þingmaður, þ.e. að 1. gr. frumvarpsins snúi ekki að hinum almennu lausasölulyfjum heldur að auglýsingum sem ætlaðar eru fagfólki.

Til að byrja með langar mig að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í það sem hún sagði í ræðu sinni um að samkeppni leiddi til lægra verðs og að lyf væru ekki mikið öðruvísi en hver önnur vara. Er þingmaðurinn mér ósammála um það að lyf séu svolítið öðruvísi en margar vörur og þess vegna þurfi að gæta ákveðinna varúðarsjónarmiða þegar kemur að auglýsingum á þeim og þess vegna þurfi að gilda mun stífari reglur um hvað eigi að koma fram í slíkum auglýsingum varðandi varnaðarorð eða telur hv. þingmaður að við gætum opnað hér mun meira og slegið af kröfum um upplýsingar um lyf?