144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[15:24]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað eru lyf ekki eins og hver önnur vara — ég reyndi að segja það — og það þarf að gæta ákveðinna öryggissjónarmiða í því.

Mitt mat er hins vegar það að í þeim reglum og þeirri lagaumgjörð sem hefur verið sett hér á landi um innflutning og sölu og meðferð lyfja þá hafi öryggissjónarmiðin yfirgnæft algjörlega það að lyf eru líka vara. Við erum á Evrópska efnahagssvæðinu og þar á að vera frjáls flutningur á vöru á milli landa, en það er ekki með lyf. Það er vegna þess að yfirvöld hér hafa túlkað lyfjalögin og öryggissjónarmiðin þannig að það þurfi að skrá lyf og gera allt eftir einhverjum óskaplega stífum og erfiðum reglum. Það yfirgnæfir hið frjálsa flæði vörunnar. Ég er ekki sammála því. Ég tel að hægt sé að uppfylla öryggiskröfur um meðferð lyfja, eins og að selja þau í lyfjabúðum — ég meina, lyfseðilsskyld lyf verða ekki seld annars staðar. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort ekki megi fara frjálslegar með einhverjar tegundir af lausasölulyfjum. Við megum ekki láta öryggisþættina (Forseti hringir.) yfirgnæfa hið frjálsa flæði vöru sem á að vera á Evrópska efnahagssvæðinu.