144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[15:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til breytinga á lögum um lyfjalög. Þetta er lítið frumvarp og einfalt en fjallar um lyfjamál, sem eru flókin mál. Margir hafa skoðanir á þeim málum og gríðarlega mikið kerfi er í kringum þau. Bæði er um að ræða markaðsleyfi, þegar lyf eru talin vera orðin þannig að þau megi markaðssetja gagnvart fólki, og síðan er það alls kyns eftirlit og regluverk. Síðast en ekki síst er það prósessinn að innleiða ný lyf sem eru að koma á markað þar sem eru miklar framfarir, til að auka líkur fólks á því að geta lifað sem bestu lífi þrátt fyrir sjúkdóma og svo að lækna sjúkdóma í ýmsum tilfellum.

Hér erum við að tala um auglýsingar á lyfjum. Það má segja um lyf eins og um áfengi og tóbak, það er íhaldssemi þegar kemur að því að leyfa auglýsingar. Við höfum bannað þær á áfengi og tóbaki en heimilað var árið 1994 að auglýsa lyf og það var vegna innleiðingar á Evróputilskipun.

Með frumvarpinu er annars vegar verið að breyta kröfunni um hvaða upplýsingar þurfi að koma fram þegar verið er að auglýsa lyf sem eru ekki lausasölulyf heldur lyf sem eingöngu má ávísa af lækni. Þau lyf má auglýsa í sérstökum fagtímaritum, t.d. í Læknablaðinu. Þar var skilyrði að mjög víðtækar upplýsingar væru veittar við slíkar auglýsingar sem olli því að margar blaðsíður Læknablaðsins fara undir þessar upplýsingar og það voru allir sammála því að það mætti alveg draga úr því magni upplýsinga sem veita þyrfti.

Bara svo að það liggi fyrir þá segir í 14. gr. laga nr. 93/1994:

„Auglýsa má og kynna lyf, sem markaðsleyfi hafa hér á landi, á íslensku í tímaritum eða blöðum þeirra heilbrigðisstétta sem ávísa og dreifa lyfjum.“

Svo kemur:

„Í lyfjaauglýsingum skal tilgreina nafn framleiðanda, heiti lyfs, virkra efna, helstu ábendingar og frábendingar er varða notkun hlutaðeigandi lyfja, pakkningastærðir og verð. Enn fremur stærð skammta og helstu atriði önnur um notkun og aukaverkanir. Framangreindar upplýsingar skulu ætíð vera greinilegar og auðlæsar og í samræmi við það sem greinir í lyfjaskrám.“

Það má því sjá að þetta ákvæði felur í sér að það eiga að vera mjög yfirgripsmiklar upplýsingar um þetta. Nú er verið að draga úr þessu og mun málsgreinin hljóða svo:

„Í lyfjaauglýsingu skal tilgreina nafn framleiðanda, heiti lyfs, virk efni og helstu ábendingar og frábendingar er varða notkun hlutaðeigandi lyfs. Upplýsingar um pakkningastærðir, verð, stærð skammta og helstu atriði önnur um notkun og aukaverkanir skal tilgreina í lyfjaauglýsingunni eða birta vísun á fylgiseðil með lyfinu á vef Lyfjastofnunar.“

Þarna má því halda áfram, eins og eðlilegt er, að birta ítarlegri upplýsingar en það er líka gefinn möguleiki á því að hægt sé að vísa inn á vef Lyfjastofnunar. Og það ber að hafa í huga að þessar auglýsingar eru ekki á almennum miðlum. Þetta er í tímaritum fagstétta og varðar lyfseðilsskyld lyf.

Þegar kemur að auglýsingum á lausasölulyfjum þá eru þær heimilaðar. En það hefur verið ein undantekning og hún er sú að ekki hefur mátt auglýsa í sjónvarpi. Þá verður að líta til þess að þessi lög eru 20 ára gömul. Þá var internetið ekki inni á heimilum þó að það væri vissulega komið til sögunnar, og þá var í raun um þrjá miðla að ræða, dagblöð og tímarit, útvarp og sjónvarp. Sjónvarp var mun áhrifaríkari miðill en hann er í dag, þegar hálf þjóðin horfði á sjónvarpsdagskrána, línulega sjónvarpsdagskrá, á hverju kvöldi. Síðan hefur margt breyst en litið var til Noregs og Danmerkur, að mig minnir, varðandi þessa undanþágu, sem nú hefur verið afnumin í dönskum lögum og nú er vilji til þess að afnema hana hér í íslenskum lögum.

Því er ekki að leyna að ég hef ákveðnar efasemdir um auglýsingar á lyfjum, en ég tel engar málefnalegar ástæður til þess að mismuna á milli miðla í þessu sambandi. Svo er farið yfir það hvernig þetta eigi að vera. Í 16. gr., 1. mgr., segir að auglýsingar um lausasölulyf skuli vera í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins sem nánar sé getið í reglugerð. Þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram eru settar fram í reglugerð af ráðherra og ber ekki að blanda þeim saman við 14. gr., sem ég las upp úr hér áðan, sem varðar lyfjaauglýsingar í tímaritum fagstétta.

Ég hugsa að flest okkar noti stundum lausasölulyf án nokkurra vandræða og þau eru mikill happafengur, maður þakkar fyrir að vera uppi á þeim tímum að geta slegið á ýmsa verki með því að taka inn töflur, það er mjög jákvætt. En það hefur líka verið bent á að inntöku sumra lyfja, inntöku samhliða áfengi eða umfram ráðlagða dagskammta, geta fylgt alvarlegar nýrnabilanir. Eins er dæmi um lyf sem var á markaði og var auglýst grimmt en svo kom í ljós að áhrif á hjartað var orðin tiltölulega algeng aukaverkun. Það þarf því að hafa í huga, þegar rætt er um auglýsingar á lyfjum, að lyf eru engin venjuleg vara.

Ég vil að það komi fram að þó að ég sé mjög íhaldssöm, þegar kemur að hugmyndinni um auglýsingar á lyfjum, þá er ekki þar með sagt að ég væri tilbúin til að banna þær eða eitthvað slíkt. En það hefur líka borið á því og læknar hafa bent á, ekki í umsögnum þó, að á pakkningum frá fyrirtækjum sem skammta lyf, oft til fullorðins fólks sem tekur mikið af lyfjum, eru lyfjaauglýsingar. Þeir hafa bent á að ef slík lyf eru tekin samhliða lyfjum sem fólk er að taka þá geti lyf sem fyrir heilbrigt fólk eru algjörlega saklaus í litlum skömmtum haft mjög alvarlegar afleiðingar, ef þeim er blandað saman við önnur lyf. Það er því ljóst að ástæða er til að fara varlega og kannski aðallega líka að tryggja að eftirlit sé með því að þeir sem auglýsa gangi fram af ábyrgð.

Í umsögnum kemur fram að landlæknisembættið er ekki hlynnt auglýsingu lyfja og bendir á að þar sem auglýsingar í sjónvarpi hafi verið heimilaðar hafi það aukið notkun verkjalyfja. Það lá fyrir að hér á landi eru ekki til neinar sérstaklega góðar greiningar á þessu og spurning hvort áhrifamáttur sjónvarps sé enn jafn mikill. Þó má leiða líkur að því að fólk sem á við langvarandi veikindi að stríða og er kannski viðkvæmast fyrir lyfjum sé líka líklegt til þess að hafa meiri tíma til að horfa á sjónvarp, þannig að ákveðin hætta sé kannski fólgin í því.

Það var umtalsverð umræða í nefndinni um öll þau fæðubótarefni og slíkt sem eru á markaði og eru auglýst grimmt. Oft er það þannig fram sett að þú ert ekki alveg viss hvort það er auglýsing eða frétt eða almenn umfjöllun í blaðinu um þessi lyf. Þegar þetta er auglýst svona jöfnum höndum — það að heimila almennar auglýsingar á lausasölulyfjum eykur líka trúverðugleika slíkra dýrra fæðubótarefna, því að oft gerir fólk ekki greinarmun á því hvort um er að ræða lyf sem hefur verið rannsakað vísindalega eða hvort um hefðbundna framleiðsluvöru er að ræða sem hefur engin eða jafnvel skaðleg áhrif, þannig að það er að ýmsu að hyggja.

Þetta voru sem sagt líflegar og miklar umræður og það var svolítið skondið að hugsa til þess að fyrir 50 árum, þegar verið var að setja lög um lyf, fóru nákvæmlega sömu umræður fram á Alþingi um svokölluð töfralyf. Það má því segja að í 50 ár höfum við kannski, mannskepnan, ekki breyst mikið enda er ekki við því að búast. Við erum nú frekar íhaldssöm tegund. Ef við horfum líka til þess þegar lyfsölulögin voru sett 1963 þá sagði framsögumaður heilbrigðis- og félagsmálanefndar:

„En á einu atriði lyfsölulaganna, sem þó er ekki nýtt, tel ég rétt að vekja athygli, af því að Íslendingar megi vera stoltir af því. Það er bannið við auglýsingum lyfja fyrir almenning. Erlendis hafa auglýsingar sums staðar valdið óhóflegri og skaðlegri — og það stórskaðlegri ofnotkun lyfja, en þessi ákvæði eru mikil vörn almennings gegn skaðlegum áróðri um mál, sem almenningur á erfitt með að dæma um og er því varnarlítill gegn.“

Ég verð nú að segja að þegar ég las þetta þá roðnaði ég smá og sá að þessi viðhorf eru ekki ný af nálinni og að sagan endurtekur sig. Varfærni virðist hafa verið mörgum þingmönnum töm í gegnum tíðina þegar kemur að lyfjaauglýsingum. Og varðandi umræðuna um fæðubótarefnin þá ætla ég líka að vitna í þingskjal, það er frá 1932, ég fór rangt með áðan, þannig að síðan eru liðin 85 ár.

Þar segir:

„Til þessa höfum við verið að mestu leyti lausir við töfralyfjaauglýsingar sem er mikið fargan úti í löndum og mjög afvegaleiðandi fyrir almenning. Á allra síðustu tímum hafa þær þó skotið upp höfðinu og væri vel ef hægt væri að stöðva þann ófögnuð.“

Það er stundum skondið að spegla sig í fortíðinni. Umræðan um lyfjamál er svipuð á Alþingi árið 1932, árið 1963 og árið 2015. En það kemur til af því að lyf eru engin venjuleg vara. Við eigum að taka það alvarlega þegar verið er að setja reglur í kringum þau og hafa það líka í huga að hagsmunirnir, sem í húfi eru, eru ekki alltaf heilbrigði og vellíðan íbúa landsins heldur hagnaðarsjónarmið þeirra fyrirtækja sem framleiða eða eru með markaðsleyfi á vörunni. Og þá þurfum við að vega og meta hvað er gott fyrir almenning, hvenær við erum að vinna í almannaþágu og hvenær við erum að vinna í þágu þeirra sem hafa fjármálalega hagsmuni af því að selja meira af lyfjum.

Eins og ég sagði: Öll nefndin stendur að þessu máli enda teljum við ekki málefnalegt að mismuna miðlum þegar kemur að auglýsingum. Við höfum síðan gert nokkrar breytingar á frumvarpinu sem eru samt litlar. Það virðist hafa gætt ákveðins misskilnings í umsögnum um málið, um að 14. gr., sem nær til lyfja í tímaritum fagfólks, nái líka til 16. gr., um lausasölulyf. Svo er ekki, því að um auglýsingar á þeim fer, eins og ég sagði, eftir fyrirmælum ráðherra í reglugerð. Við seinkum gildistöku frumvarpsins, enda er þó nokkuð síðan það kom fram og ástæða til að hægt verði að hefja undirbúning að þessum breytingum, óskað var eftir sæmilega rúmum tíma í það.

Maður veltir fyrir sér skýrleika laganna þegar Lyfjastofnun er með athugasemdir. Það virðist sem auka mætti skýrleika þessara laga svo að enginn sé í vafa um það hvaða auglýsingar er verið að ræða. Það er mikill munur á því hvort um tilvísanaskyld eða ávísanaskyld lyf er að ræða eða lausasölulyf. Það má velta því fyrir sér hvort ástæða sé til þess að taka málið inn í nefndina og hnykkja enn frekar á því, enda virðist vera af umræðunni að ekki sé öllum fyllilega ljóst hvað við er átt. Ég held að það kæmi vel til greina. Svo munum við væntanlega næstu áratugina halda áfram sams konar umræðum um lyf hér á Alþingi og rifja upp okkur til skemmtunar og líka til áminningar að fátt breytist með nokkurra áratuga millibili.