144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni velferðarnefndar, fyrir góða ræðu og mikið af upplýsingum, en við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum og það er einkum tvennt sem um ræðir, þ.e. að afnema bann á auglýsingum í sjónvarpi á lausasölulyfjum og kröfur til upplýsinga.

Mig langar að spyrja um hvort tveggja, en í fyrra andsvari um afnám bannsins. Almennt er ég þeirrar skoðunar að einstaklingar taki ábyrgð á ákvörðunum sínum og eigin heilsu í þessu tilviki, og það er samhljómur með okkur í því. Og ég er sammála hv. þingmanni um að það sé ekki málefnalegt að mismuna eftir miðlum, en hefði hv. þingmaður kosið að fara hina leiðina og banna alfarið auglýsingar á lyfjum, þar með talið lausasölulyfjum?