144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum. Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að dregið verði úr kröfum um þær upplýsingar sem þurfa að koma fram í lyfjaauglýsingum samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna, og hins vegar að afnumið verði það bann sem gilt hefur um auglýsingar á lausasölulyfjum í sjónvarpi.

Ég er líkt og aðrir nefndarmenn hv. velferðarnefndar á þessu nefndaráliti en með fyrirvara þó og ég ætla í ræðu minni að gera grein fyrir þeim fyrirvara um leið og ég fjalla um málið.

Það kom fram fyrir nefndinni að óljóst væri hvort 1. gr. frumvarpsins væri ætlað að taka til auglýsinga á lausasölulyfjum fyrir almenning eða aðeins til auglýsinga fyrir heilbrigðisstéttir. Ég held að ráða megi af þeim umræðum sem hér hafa farið fram í dag að það sé dálítið réttmæt ábending að það sé óljóst, því að þetta hefur vafist fyrir hv. þingmönnum hér sem hafa verið að reyna að kynna sér málið og hafa auðvitað ekki haft til þess þann sama tíma og við sem sitjum í hv. velferðarnefnd. Það kannski eitt og sér má líta á sem ákveðið áhyggjuefni, þ.e. hvernig lögin verða skilin úti í þjóðfélaginu. Í nefndaráliti með breytingartillögu kemur engu að síður skýrt fram á bls. 2 að nefndin telur að túlka beri 2. mgr. 14 gr. lyfjalaga þannig að hún eigi einungis við um auglýsingar fyrir heilbrigðisstéttir sem ávísa og dreifa lyfjum, og að 1. gr. frumvarpsins sem hér er til umræðu eigi því ekki við um auglýsingar á lausasölulyfjum fyrir almenning.

Hitt atriðið, þ.e. 2. gr. frumvarpsins, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna fellur brott.“

Það þýðir að verði frumvarpið samþykkt er ekki lengur bannað að auglýsa lyf í sjónvarpi. Ég verð að viðurkenna að ég hafði við 1. umr. þessa máls mjög miklar efasemdir og fyrirvara um það hvort það væri sniðugt að fjölga þeim miðlum sem mætti auglýsa lausasölulyf í. En eftir umfjöllun í nefndinni þá komst ég að þeirri niðurstöðu að miðað við að auglýsingar á lausasölulyfjum væri leyfðar í öllum öðrum miðlum væri ekki rétt að útiloka auglýsingar í sjónvarpi, þetta væri því bara til samræmis þannig að eitt gilti um alla miðla.

Það er eiginlega þetta sem fyrirvari minn um málið snýst um, efasemdir mínar um hvort það eigi yfir höfuð að auglýsa lyf. Ég hef ákveðnar efasemdir um hvort það sé æskilegt. Eins og kemur meðal annars fram í umsögn frá landlæknisembættinu geta lausasölulyf haft ýmsar óþægilegar og jafnvel hættulegar aukaverkanir og notkun þeirra bætir ekki heilsu almennings. Það er því út frá lýðheilsusjónarmiðum sem ég set spurningarmerki við þetta. En það er eiginlega sérumræða sem við verðum að taka, hvort við viljum fara með lögin hreinlega í aðra átt. En meðan auglýsingar eru leyfðar í sumum miðlum finnst mér ekki rök fyrir því að banna þær í tilteknum miðlum eins og sjónvarpi.

Þegar kemur að auglýsingum á lausasölulyfjum gilda mjög skýrar reglur um þær sem lesa má um í reglugerð sem fylgir lögunum. Þar eru ýmis mikilvæg atriði tekin fram, svo sem að lyfjaauglýsing sem beint er til almennings skuli sett fram á þann hátt að það eigi öllum að vera ljóst að um auglýsingu sé að ræða og að sú vara sem verið er að auglýsa sé lyf. Þar segir jafnframt að lyfjaauglýsing sem beint er til almennings megi ekki fela í sér neitt það sem gefi til kynna að óþarfi sé að leita til læknis eða gangast undir aðgerð eða læknismeðferð eða sem gefi til kynna að heilsa viðkomandi gæti batnað við það að taka lyfið, auk þess sem einnig má ekki vísa til meðmæla vísindamanna, fagmanna úr röðum heilbrigðisstétta eða einstaklinga sem eru hvorki vísindamenn né fagmenn. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt því að það setur ramma um það hvernig lyfjaauglýsingar eigi að vera.

Það varð líka talsverð umræða í nefndinni um jurtalyf, náttúrulyf og fæðubótarefni og um þau efni eru heilu blaðsíðurnar í dagblöðum sem erfitt er að rýna í hvort séu auglýsingar eða lífsstílsviðtöl. En hvort sem það er í raun þá virkar þetta sem auglýsingar á þessum tilteknu efnum. Mér finnst mikilvægt næsta skref, og ég velti því upp hvort þá umræðu eigi að taka upp í tengslum við endurskoðun á lyfjalögum, að setja skýrari reglur um þessi efni sem er alla vega ekki rétt efnafræðilega séð að flokka sem lyf en sumir nota þau engu að síður sem slík. Þegar kemur að lyfjum gilda mjög stífar reglur, líkt og ég fór yfir, og í reglugerð um lyfjaauglýsingar er mjög skýrt tekið fram hvað má og hvað má ekki. Það má til dæmis ekki auglýsa eða selja vöru með upplognum eiginleikum. Nú ætla ég ekki að segja það um öll náttúrulyf eða jurtalyf að verið sé að ljúga upp á þau eiginleikum. Hins vegar þekkjum við líklega flest umfjöllun um þau í fjölmiðlum þótt ekki hafi verið sýnt fram á virkni þessara efna. Mér finnst það mjög alvarlegt mál ef hægt er með auglýsingum eða umfjöllunum að höfða til fólks og telja því jafnvel trú um að einhver efni muni gagnast því, jafnvel betur en hefðbundin lyf. Þá held ég að við séum komin inn á mjög hættulega braut. Það getur verið hættulegt að leyfa auglýsingar á hefðbundnum lyfjum út frá lýðheilsusjónarmiðum og almennum heilbrigðissjónarmiðum, en þessi braut er ekki síður hættuleg og þá erum við algjörlega komin út í öfgar í vitlausa átt hvað varðar fæðubótarefni og jurtalyf. Þess vegna mundi ég telja mikilvægt að við séum mjög meðvituð um þetta og þegar við fjöllum um breytingar á lyfjalögum verði þessi angi lyfja, ef við getum kallað þau svo, einnig skoðaður.

Líkt og ég sagði í upphafi máls míns þá styð ég þær breytingar sem hér eru lagðar til en með þeim fyrirvara þó að ég velti því fyrir mér hvort lyfjaauglýsingar eigi yfir höfuð rétt á sér, þó svo að ég taki undir það að innan þess ramma sem lögin ná til er ekki eðlilegt að útiloka einn miðil frá því að geta auglýst ef það er á annað borð leyft.