144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, það er ekkert asnalegt við þessa spurningu hv. þingmanns. Mér hefur kannski ekki tekist að vera nógu skýr með það í ræðu minni að fyrirvari minn gengur einmitt út á það að ég tel að hér séum við að fara í ranga átt og að það ætti fremur að fara í þá átt að draga úr eða jafnvel banna auglýsingar á lyfjum.

Hins vegar finnst mér rökin í umsögn landlæknis kannski ekki alveg eiga við, þ.e. að sjónvarp sé sá sterki og áhrifaríki miðill sem það var fyrir einhverjum árum eða áratugum. Það eru einfaldlega til svo fjölmargir aðrir sterkir miðlar, svo sem internetið, þar sem auglýsingar á lyfjum eru heimilaðar. Mér finnst að á meðan við erum ekki að taka umræðuna um það hvort við eigum að banna auglýsingar á lyfjum þá sé ekki rétt að útiloka þennan eina miðil. Ég vil hins vegar mjög gjarnan taka umræðu sem ég held að þurfi að vera almennileg og heildstæð um það hvort við séum á rangri braut með þetta, t.d. vegna lýðheilsusjónarmiða, en þá eigi allar tegundir auglýsinga í öllum miðlum að vera undir. Kannski er ákveðin flækjuleið að segja: Byrjum á að heimila auglýsingar í sjónvarpi og förum síðan aftur til baka. (Forseti hringir.) Miðað við umræðuna og umfjöllun í nefndinni og þar sem við erum í dag þá held ég að við verðum samt að fara þá krókaleið.