144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. 1. gr. þessa frumvarps vísar eingöngu til lyfjaauglýsinga sem birtast í ritum sem ætluð eru fagfólki. Það sem er verið að vísa í að tilgreina eigi um aukaverkanir eða birta vísun í fylgiseðil með lyfinu á vef Lyfjastofnunar á einungis við auglýsingar sem beint er til fagmanna og eiga aldrei að koma fyrir sjónir almennings nema þeirra sem leggja sig eftir því sérstaklega að lesa slík fagtímarit. Í því ljósi finnst mér þetta allt í lagi. Ég treysti alveg læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum til þess að afla sér haldgóðra upplýsinga um lyf, hvort sem það er á vef Lyfjastofnunar eða í fylgiseðli.

Hvað varðar auglýsingar sem birtast eiga almenningi og auglýsingar á lausasölulyfjum þá gilda allt aðrar reglur. Þetta má allt saman lesa í greinargerð með frumvarpinu. Þá er sérstök reglugerð sem gefin er út á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem gilda sérstakar reglur um það hvernig slíkar auglýsingar eiga að vera. Þar er frekar skýrt hvað á að koma fram eða má ekki koma fram hvað slíkar auglýsingar varðar.

Tími minn er búinn.