144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:33]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir prýðisræðu og sér í lagi þar sem hún sem einn af aðilum hv. velferðarnefndar er á því nefndaráliti sem fylgir lagafrumvarpinu sem við erum að fjalla um. Hún gerði grein fyrir undirritun sinni sem hún gerði með fyrirvara. Ég þakka henni fyrir þá útskýringu. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni að þetta er óskýrt. Ég skil vel þennan fyrirvara vegna þess að — ja, við getum orðað það þannig að lyf sé ekki sama og lyf. Ég tek undir þær skoðanir sem hafa komið hér fram, að við eigum í öllum tilvikum að leita upplýsinga og treysta á fagfólk þegar kemur að lyfjum og lyfjanotkun og virkni þeirra og verkunum. Ég get jafnframt sagt að ég er almennt þeirrar skoðunar að einstaklingurinn taki ábyrgð á eigin heilsu og taki almennt ábyrgð á sjálfum sér og þeim ákvörðunum sem hann tekur, en til þess þurfum við auðvitað að hafa aðgengi að góðum upplýsingum.

Hv. þingmaður kom jafnframt inn á það að almenn lýðheilsa væri efni í sérstaka umræðu. Ef við tölum um fagfólkið þá kemur hér fram í athugasemd frá embætti landlæknis að auknar auglýsingar muni auka sölu og notkun muni aukast, enda sé það tilgangur auglýsinga, þetta þjóni ekki lýðheilsusjónarmiðum, og telur embættið þess vegna að þetta sé ekki skynsamlegt og rökin í athugasemdum í frumvarpinu sjálfu séu léttvæg. (Forseti hringir.) Hvernig bregst hv. þingmaður við þeirri staðhæfingu?