144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:53]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langt en þetta sló mig svolítið af því að ég hafði ekki tekið eftir auglýsingaskiltinu sem hv. þm. Haraldur Einarsson nefnir. Auðvitað er hætta á því að við sjáum meira af þessu.

Það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um og athuga, vegna þess að ég er einn af meðflutningsmönnum þessa nefndarálits, er hvað honum þætti um það ef sett yrði á lyfjapakkningar svipað og sett er á tóbakspakkningar, þar sem varað yrði við aukaverkunum lyfjanna. Ef ég tala bara fyrir sjálfa mig þá gleypi ég yfirleitt blessuð lyfin ef ég er með hausverk eða eitthvað og velti stundum ekkert fyrir mér hvað stendur í fylgiseðlinum, sem er kannski algjört kæruleysi. En þegar maður kíkir í fylgiseðilinn sér maður að aukaverkanirnar eru oft gríðarlega alvarlegar og stundum hugsar maður með sér: Guð minn góður, er ég að taka þetta þegar ég er með smáhöfuðverk, er ég að taka einhverjar töflur og get næstum fengið heilablóðfall af því að taka þær inn? Auðvitað eru það þó sjaldgæf tilfelli. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvaða þætti honum ef lyfjapakkningar væru merktar með varúaðrráðstöfunarmerkingum til þess að fólk hugsaði aðeins áður en það að tæki inn lyf?