144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:57]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að hafa þetta stutt. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, að upplýsingarnar eru auðvitað nú þegar til staðar á pakkningum lyfjanna, en þær eru á einhverjum blaðsnepli sem er límdur saman og þvælist stundum fyrir. Það liggur við að maður rífi hann af og hendi honum í ruslið, það er nánast þannig.

Það sem ég var að hugsa var hvort það gæti ekki haft einhver áhrif ef upplýsingar um aukaverkanir lyfjanna væru aðgengilegri, það væri einhvers konar merking eða tákn sem gæfi til kynna að þetta væri ekki venjuleg neysluvara.

Það er vonandi, eins og hefur verið mikið í umræðunni undanfarið og er tilraunaverkefni á sumum heilsugæslustöðvum, að hreyfiseðlar verði betur nýttir og meira nýttir í stað inntöku lyfja, að það fái brautargengi í þjóðfélagi okkar, vegna þess að hófleg hreyfing getur gert ótrúlega margt fyrir fólk.