144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[17:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta prýðileg hugmynd hjá hv. þingmanni, að menn parkeruðu því frumvarpi sem við erum að ræða hér og í staðinn yrði viðkomandi stjórnvaldi falið að gera allsherjaryfirhalningu á þessum pakka öllum. Þá verða teknir inn í hana allir þeir miðlar sem undir eru og menn komast að einhverri niðurstöðu, en hún verður að byggja á markmiðsákvæðum lyfjalaganna og þau eru algjörlega skýr. Þau fela í sér að meðferð lyfja á markaði á að vera þannig að ekki sé ýtt undir óhóflega notkun og hún á að vera á grundvelli almennra sjónarmiða um lýðheilsu. Um þetta erum við hv. þingmaður sammála þannig að mér finnst að þá sé til nokkurs unnið á þessum góða degi, að hinn yngri vængur Framsóknarflokksins sé að renna saman við öldungadeild Samfylkingarinnar. Það er dálítið gott fyrir báða.