144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[17:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem mér fannst afar góð. Það sem ég hef náð að hlusta á í dag hefur mér þótt afar upplýsandi. Það er nefnilega oft þannig með frumvörp sem virðast láta lítið yfir sér að umræðan um þau, eins og hefur átt sér stað í dag, veldur því að fólk verður oft meðvitaðra um það sem frumvörpin innihalda sem mörgum var kannski ekki ljóst áður.

Þingmaðurinn talaði töluvert um að miða við það að allir skilji upplýsingarnar og mér fannst það mjög góður punktur, að miða við að allir skilji og tryggt sé að allir skilji hvaða þýðingu það hafi að taka eitthvert tiltekið lyf í staðinn fyrir að gera ráð fyrir því að við sem erum í færum til þess getum leitað okkur upplýsinga um það á netinu eða hvar það nú er. En það eru ekki allir í færum til að gera það. Mér fannst það mjög athyglisverður punktur og eins að velta því upp hvort við getum ekki snúið ábyrgðinni að þeim sem selja lyfin.

Nú hefur verið bent á að í reglugerð um lyfjaauglýsingar kemur fram í 7. gr. um lyfjaauglýsingar sem beint er til almennings að það eigi að koma fram heiti lyfs ásamt samheiti, nauðsynlegar upplýsingar um notkun, mikilvægar varúðarreglur, aðvaranir og skömmtun og skýra og nauðsynlega hvatningu til að lesa leiðbeiningar og allt það sem við viljum að sé opinbert. Þess vegna langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður telji að við séum í raun að draga úr vægi þeirra reglna sem eru til staðar, ekki bara um sjónvarpsauglýsingar heldur allar auglýsingar á lyfjum hvort sem er í blöðum eða annars staðar. Svo spyr ég annarrar spurningar síðar.