144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

starfsáætlun.

[11:05]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil koma með sams konar ábendingar eða vangaveltur og lýsa yfir áhyggjum mínum af því að þingið er án áætlunar núna, við erum áætlunarlaus. Það má velta upp þeirri spurningu hvort starfsáætlun hafi nokkurn tímann verið í gildi eða hvaða þýðingu hún hafi. Það er ekki verið að setjast niður og búa til í sameiningu einhverja áætlun og í rauninni er þingið núna orðið einhvers konar biðstofa eftir þingmálum. Við heyrum um að boðuð séu þingmál og við erum í viðbragðsstöðu. Er það þannig sem þingið á að vera í framtíðinni? Eða þurfum við ekki að spyrna við fótum og reyna að koma einhverju skikki á verklagið og setjast niður og búa til áætlun? Það er vont fyrir alla að vera hérna algjörlega án áætlunar.