144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

starfsáætlun.

[11:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta eru erfiðir tímar fyrir ríkisstjórnina. Ég vil biðja hv. þingheim að hafa aðgát í nærveru viðkvæmra sálna. Sjálfur er ég áhyggjulaus á þessum fallega morgni. Það er kannski aðallega eitt sem ég hef svolitlar áhyggjur af. Ég hef verið áhugamaður um það að reyna að styðja ríkisstjórnina eftir megni við að koma hér í gegn frumvörpum sem gætu hugsanlega greitt fyrir afnámi gjaldeyrishafta. Ég hef beðið eftir þeim í alllanga hríð, herra forseti, og það mundi greiða að minnsta kosti fyrir þátttöku minni eða þátttökuleysi í þingstörfum ef hæstv. forseti gæti upplýst það hvort ríkisstjórnin muni standa við yfirlýsingar hæstv. fjármálaráðherra frá síðustu viku um að þau frumvörp yrðu lögð fram í vikunni sem nú er að líða. Þetta eru síðustu forvöð. Spurning mín er: Mun hæstv. fjármálaráðherra standa við yfirlýsingar sínar um að leggja fram frumvarp til að hægt sé að ganga frá eða undirbúa afnám gjaldeyrishafta, eða er kominn pikkles (Forseti hringir.) í það mál millum stjórnarflokkanna?