144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

skattbreytingar og ávinningur launþega.

[11:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég fagna tækifæri til þess að ræða um skattbreytingaáform ríkisstjórnarinnar. Við höfum lengi boðað að við vildum lækka skatta að nýju sem voru hækkaðir hér á árunum eftir hrun, sérstaklega á lægri endann og millitekjufólk, og með því einfalda skattkerfið. Það er ekki rétt að ríkisstjórnin hafi ekkert gert fyrir lágtekjuhópana. Við hækkuðum viðmiðið fyrir neðsta þrepið þó nokkuð undir lok árs 2013 og það skipti miklu fyrir lágtekjufólk, fólk með undir 300 þús. kr. í tekjur. Það sem við ætlum að gera núna er að lækka lægsta þrepið og tryggja þannig að við komum ávinningi af breytingunum niður til allra. Við ætlum að fella út milliþrepið, en breyta viðmiðum milli nýja þrepsins og efra þrepsins þannig að það komi fyrr inn og við miðum við um 700 þús. kr. Þetta tryggir að allir muni njóta ávinnings af skattalækkuninni nema þá helst þeir sem eru með allra hæstu tekjurnar vegna þess að ávinningurinn af þessari breytingu fjarar út fyrir allra hæstu tekjuhópana. Fyrir fullvinnandi fólk má segja að 65% muni fá út úr þessari breytingu um það bil 50 þús. kr. aukningu á ráðstöfunartekjum á ári, 65% fullvinnandi fái um 50 þús. kr. aukningu á ári á ráðstöfunartekjum.

Það er hins vegar rétt sem hv. þingmaður segir að þetta mun einkum gagnast millitekjuhópunum, en það spilar mjög vel saman við þá niðurstöðu sem er að fást í samningum á almennum markaði þar sem einkum er lögð áhersla á hækkun lægstu launa.

Varðandi bætur þá vísa ég til þess að við höfum lögbundið ákveðið fyrirkomulag um það hvernig þær eiga að taka breytingum í samræmi við ýmist verðlags- eða launabreytingar í þjóðfélaginu. Það er þá næsta verkefni að fara yfir útfærsluna á því.