144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

skattbreytingar og ávinningur launþega.

[11:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu mikið félagslegt tillit byggt inn í kerfið í dag með persónuafslættinum og því sem við stefnum á með þessum breytingum að vera með tveggja þrepa kerfi. Skattbyrðin er langminnst neðst og hún fer hækkandi eftir því sem launin hækka og heldur áfram að hækka þótt launin séu komin upp í ofurlaun.

Varðandi bæturnar þá var það nú ekki þannig hjá fyrrverandi ríkisstjórn að hún liti svo á að bótaflokkar jafngiltu launaflokkum, þ.e. að þeir sem fengju bætur úr almannatryggingakerfinu væru alltaf jafnsettir þeim sem eru fullvinnandi. Ef verið er að boða þá stefnubreytingu þá er það eitthvað nýtt í mín eyru, það gilti ekki hér á síðasta kjörtímabili. Bætur taka breytingum samkvæmt lögbundnu fyrirkomulagi og ef það stendur til að gera frekari breytingar en við höfum lögbundið þá er það alveg rétt, þá þarf að taka sjálfstæða sérstaka ákvörðun um það. En geta okkar til þess að gera (Forseti hringir.) mun betur eins og að fara með lífeyrisgreiðslur upp í 300 þús. kr. er að sjálfsögðu takmörkuð af stöðu ríkisfjármálanna hverju sinni. (Forseti hringir.) Það væri gríðarlega kostnaðarsöm aðferð sem hv. þingmaður er að boða hér.