144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

túlkasjóður.

[11:32]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra svörin. Ég var svo sem alveg búinn að gera mér augljóst fyrir fram hvernig þau yrðu, hann svaraði ekki spurningum mínum.

Ég vil leyfa mér að árétta að þetta mál snýst ekki um ölmusu eða manngæsku og eiginlega ekki um pólitík heldur. Hér er um mannréttindi að ræða, tækifæri til að taka þátt í samfélaginu án mismununar og leggja sitt af mörkum. Þar eru grundvallarlífsgæði fólks í húfi.

Ég vil líka í þessu sambandi leyfa mér að minna hæstv. ráðherra og okkur öll hér inni á lög nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, sem voru akkúrat fjögurra ára í fyrradag, og þær skyldur sem á íslenskum stjórnvöldum hvíla samkvæmt þeim lögum til að hlúa að íslensku táknmáli og að óheimilt sé að mismuna mönnum eftir því hvaða mál þeir nota.

Ég vil því hvetja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og raunar alla ríkisstjórnina og okkur hér inni til að reka af okkur þetta slyðruorð og gera það sem gera þarf til að reka megi þennan mikilvæga túlkasjóð þannig að sómi verði að. Annað er skammarlegt. Er ekki hæstv. ráðherra sammála mér um það?