144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjárframlög til túlkasjóðs.

[11:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Páll Valur Björnsson sleppti honum hér áðan í samskiptum við hæstv. ráðherra vegna þess að ráðherrann svaraði ekki spurningunum. Hann afrekaði það í svörum sínum við mjög raunhæfri og mikilvægri spurningu að nefna síðustu ríkisstjórn sex sinnum, en nú er bara svo komið, virðulegur forseti, að við erum komin á seinni hluta kjörtímabilsins þannig að hæstv. ráðherra verður að átta sig á því að hann er ekki í stjórnarandstöðu við fyrri ríkisstjórn, hann getur ekki kennt Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra um öll sín mein, heldur verður hann að fara að axla ábyrgð á sínum málaflokki.

Að því sögðu langar mig að segja, virðulegur forseti, að túlkasjóðurinn er uppurinn á þessum ársfjórðungi. Sjóður fyrir túlkun í daglegu lífi er uppurinn eina ferðina enn þrátt fyrir að ráðherra hafi ætlað að leysa málið með því að setja Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra þá reglu að skipta sjóðnum í fjóra ársfjórðunga. Það var lausnin sem ráðherrann hafði.

Nú er það svo að stúdentsveisla daufblindrar stúlku verður ekki túlkuð fyrir hana. Félagsfundur í Fjólu, félagi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, verður ekki túlkaður fyrir félagsmenn. Brúðkaupsveisla verður ekki túlkuð fyrir manneskju sem er í fjölskyldu með brúðhjónunum. Ættarmót verður ekki túlkað. Skipulagsfundur verður ekki túlkaður. Bankaviðtal þar sem viðkomandi ætlaði að taka lán út af fasteignakaupum verður ekki túlkað. Kona ætlaði á meðvirkninámskeið, hún getur ekki farið á það vegna þess að sjóðurinn er uppurinn. Þetta er staðan.

Túlkun í skólakerfinu leysir þetta ekki, virðulegur forseti. Og túlkun í heilbrigðisþjónustunni leysir þetta ekki heldur.

Við ákváðum hér saman 63:0 í nýjum lögum um stöðu íslenska táknmálsins árið 2010 að staða íslensks táknmáls væri jafnstaða við íslenska tungu. Hér erum við að tala um sjóð sem er svo smár að hann nær ekki einu sinni tveimur tölustöfum, þ.e. við erum að tala um örlítinn sjóð sem snýst um lágmarksmannréttindi fyrir þennan hóp sem á að hafa jafnstöðu við okkur hin sem höfum íslensku að móðurmáli.