144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[11:49]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Ég vil byrja á því að biðja þingheim afsökunar á því hversu seint samgönguáætlunin kemur fram. Þar að baki eru ýmsar ástæður sem ég ætla ekki að tíunda hér.

Í öðru lagi vil ég nefna að ég vona að þrátt fyrir að tíminn sé svo sannarlega knappur fái áætlunin þó umfjöllun í þingnefnd eftir því sem best getur orðið við þær aðstæður sem hér eru uppi. Ég taldi nauðsynlegt þrátt fyrir að tillagan væri tilbúin svona seint að leggja hana fyrir þingið á þessu þingi frekar en að geyma hana til haustsins, sem að sjálfsögðu hefði verið hægt að gera en mér fannst mikilvægt að tillagan gæti að minnsta kosti birst þingmönnum og eftir atvikum fengið einhverja umræðu. Ég legg áherslu á það í upphafi umræðunnar og einnig er það hitt, sem breytir ekki þeirri stöðu sem þessi tiltekna áætlun er í núna, að tvö undangengin ár hefur samgönguáætlun ekki náð fram að ganga. Það má segja að það séu viss vandkvæði í því fólgin fyrir yfirvöld samgöngumála í landinu.

Samkvæmt lögum nr. 33/2008, um samgönguáætlun, skal innanríkisráðherra leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar á fjögurra ára fresti um stefnumótandi samgönguáætlun þar sem mörkuð er stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu 12 árin. Gildandi samgönguáætlun tekur til áranna 2011–2022. Samhliða skal leggja fram nákvæmari verkefnaáætlun til fjögurra ára sem endurskoðast á tveggja ára fresti.

Samgönguáætlun 2015–2018 sem hér er kynnt er því endurskoðuð verkefnaáætlun fyrir annað tímabil 12 ára samgönguáætlunar, framhald samgönguáætlunar áranna 2011–2014, lögð fram til þingsályktunar samkvæmt lögum.

Tillagan varðar jafnframt fyrsta tímabil nýrrar stefnumótandi áætlunar til 12 ára sem nú er í smíðum og tekur til áranna 2015–2026. Sú áætlun verður tilbúin til framlagningar í haust.

Samgönguáætlun sem hér er kynnt er unnin af samgönguráði fyrir ráðherra og byggir á forgangsröðun verkefna Vegagerðarinnar, Isavia og Samgöngustofu á tímabilinu á forsendum fjárlaga 2015. Tillagan er í samræmi við stefnu samgönguáætlunar 2011–2022, stefnu ríkisstjórnarinnar og áherslu ráðherra og aðrar áætlanir hins opinbera.

Í samgönguáætlun 2015–2018 er gert ráð fyrir að tæpir 112 milljarðar kr. verði til ráðstöfunar til samgöngumála á tímabilinu og er þar reiknað með að árleg framlög til samgangna aukist um 3% árlega árin 2016, 2017 og 2018, í samræmi við hagvaxtarspár.

Á undanförnum árum hefur verið skorið verulega niður til samgöngumála sem komið hefur mest niður á nýframkvæmdum og í vaxandi mæli viðhaldi, en áhersla hefur þó verið á að halda uppi góðri þjónustu. Á fundi ríkisstjórnar nú í vikunni var ákveðið að veita að auki 1.800 millj. kr. til brýnna verkefna í vegagerð, þar af verði 500 millj. kr. varið til brýnasta viðhalds á umferðarmestu vegum á höfuðborgarsvæðinu og hringveginum í samræmi við ástandsmat Vegagerðarinnar, en 1.300 millj. kr. verði varið til framkvæmda við Dettifossveg, Kjósarskarðsveg, Uxahryggi og Kaldadal, sem allt eru mikilvægar ferðamannaleiðir. Vissulega eru verkefni sem óskandi væri að hefja á því tímabili sem áætlun tekur til, en tillagan byggir fyrst og fremst á raunsæi og fyrirhyggju þar sem fjármunir eru takmarkaðir.

Verkefnaáætlunin skiptist í fjóra kafla. Í fyrstu þremur köflunum er að finna yfirlit yfir helstu verkefni samgöngustofnana og gerð grein fyrir áætluðum tekjum og gjöldum þeirra ára sem tillagan tekur til. Í 4. kafla er gerð grein fyrir almennum samgönguverkefnum, úttektum og rannsóknar- og þróunarverkefnum, sem mynda faglegan grunn við endurskoðun stefnumótunar í samgöngumálum.

Vegagerðin fer með framkvæmdahlið vega og hafnamála á Íslandi meðan Samgöngustofa sér um stjórnsýslu og eftirlit. Fjárveitingar til Vegagerðarinnar eru því á tveimur fjárlaganúmerum, nr. 06-651 og 06-662, hafnarframkvæmdir og vegagerð. Vegagerðin sér því nú um, auk vegaframkvæmda, viðhalds og þjónustu við vegakerfið í samstarfi við eigendur, verkefni sem snúa að nýbyggingu, viðhaldi og rekstri hafna, vita og sjóvarnargarða. Heildarframlag til vega- og hafnamála er ríflega 101 milljarður, þar af renna um 95 milljarðar kr. til vegamála, en þar til viðbótar koma 1.800 milljónir sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita aukalega til vegamála. Samtals er því til umráða tæpir 103 milljarðar.

Útgjöld vegáætlunar skiptast í aðalatriðum í sex hluta; rekstur, almennar samgöngur, þjónustu, viðhald og stofnkostnað auk hafna. Árlega munu renna um 900 millj. kr. til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, samtals um 3,5 milljarðar. Styrkir til ferju- og almenningssamgangna á landsbyggðinni nema alls 6,3 milljörðum. Loks eru ríkisstyrkir til áætlunarflugs innan lands um 1,1 milljarður kr.

Veg- og hafnaáætlun 2015–2018 tekur nokkrum breytingum frá fyrri áætlun. Stærsti hluti fjármagns til samgangna rennur eins og áður til vegamála, sem koma mestmegnis af mörkuðum tekjustofnum, samtals 74 milljarðar, en bein framlög úr ríkissjóði nema rúmum 21 milljarði. Ljóst er að allir sem koma að umræðu um ákvarðanatöku í samgöngumálum þurfa að gera sér ljósan þann mikla mun sem er á tekjum ríkisins og kostnaði við þjónustu, viðhald og framkvæmdir sem áhugi er á að ráðast í.

Vegna óhagstæðs veðurfars og vaxandi þjónustukrafna síðustu ár hefur safnast upp mikill halli á vetrarþjónustu Vegagerðarinnar, en í áætluninni er miðað við að bætt verði við fjárveitingar til þeirrar þjónustu frá því sem verið hefur. Skilgreind framkvæmdamarkmið fyrir vegakerfið eru að byggja upp grunnnet stofnvega með fullu burðarþoli og bundnu slitlagi, breikka umferðarmikla vegi og aðskilja akstursstefnur, útrýma einbreiðum brúm á fjölförnum vegum og grafa jarðgöng í samræmi við jarðgangaáætlun. Þá verður að tryggja fullnægjandi viðhald svo ekki glatist þau verðmæti sem bundin eru í vegum, brúm, jarðgöngum og öðrum mannvirkjum.

Gert er ráð fyrir 24 milljörðum kr. í viðhald og tæpum 38 milljörðum kr. í framkvæmdir við stofn- og tengivegi, þar af fari um 14 milljarðar kr. til jarðgangagerðar. Stærstu framkvæmdir á tímabilinu eru gerð Norðfjarðarganga sem verða opnuð á tímabilinu, breikkun vegar um Hellisheiði og áfram milli Hveragerðis og Selfoss, Álftanesvegur og Arnarnesvegur, Vestfjarðavegur frá Eiði í Kjálkafjörð og um Gufudalssveit, Bjarnarfjarðarháls á Ströndum, Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðarvegar, hringvegur um Hornafjarðarfljót, hluti Strandavegar, hringvegur í Berufjarðarbotni, auk fjöldi smærra verka. Þá bætast við framkvæmdir á þessu ári við Uxahryggi og tenging við Þingvelli um Kaldadal, auk Kjósarskarðsvegar og hluta af Dettifossvegi vegna viðbótarframlags ríkisstjórnarinnar.

Lagt er til að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hefjist árið 2017. Rannsóknum vegna Fjarðarheiðarganga verður áfram haldið. Reiknað er með fjármagni til hafnarframkvæmda ásamt vega- og jarðgangatengingum á iðnaðarsvæðinu á Bakka við Húsavík, sem raunar er verkefni sem er vistað í samgönguáætlun þótt forræði þess sé á hendi atvinnuvegaráðuneytisins. Einnig ber að geta þess að Sundabraut kemur nú aftur inn í áætlun, en hugað er að fjármögnun þeirrar framkvæmdar með þátttöku einkaaðila. Vart þarf að taka fram hversu mikilvæg sú framkvæmd er fyrir samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins og stendur vilji til þess að þoka því verkefni áfram.

Á höfuðborgarsvæðinu á að bæta umferðarflæði með ýmsum smærri verkefnum sem ætlað er að útrýma flöskuhálsum, bæta forgang almenningssamgangna með fleiri sérreinum og auka umferðaröryggi, einkum uppsetningu vegriða. Í síðustu áætlun voru sett markmið um sjálfbærar samgöngur og fjölgun valkosta með ferðamáta í þéttbýli, m.a. með framlögum til almenningssamgangna, göngu- og hjólastíga. Í gildi er samningur milli ríkis og sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins sem skrifað var undir í maí 2012. Verkefnið er til tíu ára og er markmið þess meðal annars að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu á samningstímanum. Einnig er vinna að lækkun á samgöngukostnaði heimila og samfélagsins vegna umferðar og umferðarslysa og fleira.

Þeim sem nýta sér aðra samgöngumáta hefur fjölgað verulega, samanber ferðavenjukönnun Vegagerðarinnar á síðasta sumri en þá ferðaðist um fjórðungur íbúa höfuðborgarsvæðisins hjólandi, gangandi eða með strætó, sem er verulegur árangur. Því verður áfram veitt fé til framkvæmda við hjólreiða- og göngustíga, göngubrýr og undirgöng til að efla notkun vistvænna ferðamáta. Þá er gert ráð fyrir svipuðum styrk til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli þess samnings sem er í gildi.

Þjónusta Vegagerðarinnar miðar að því að standa undir viðunandi rekstri vegakerfisins og tryggja greiða og örugga umferð. Kröfur um þjónustu á vegakerfinu hafa stöðugt farið vaxandi og mun sú þróun halda áfram, ekki hvað síst með ört vaxandi fjölda erlendra ferðamanna. Gert er ráð fyrir um 16 milljörðum í þennan lið.

Upplýsingakerfi Vegagerðarinnar er til fyrirmyndar og njóta allir landsmenn góðs af því að geta kannað veður og færð á vegum rafrænt og í öflugu upplýsingakerfi. Ekki má gleyma mikilvægi rannsókna en um 600 millj. kr. renna til rannsókna á tímabilinu sem margar hverjar skila góðum arði í nýjungum og nýtingu, auk þess sem niðurstöður renna oft betri stoðum undir stefnumörkun og ákvarðanatöku.

Markmið hafnahlutaáætlunarinnar er að tryggja sem fyrr innviði fyrir sjávarútveg og samgöngur. Hafnargerð, sjóvarnir og rekstrarverkefni vegna siglinga hafa nú flust til Vegagerðarinnar. Þannig verður um 6,4 milljörðum varið til siglingamála á tímabilinu, þar af renna 4,1 milljarður til hafnarframkvæmda, 1,2 milljarðar til vaktstöðvar siglinga og 577 milljónir til vita- og leiðsögukerfa. Auk þess er varið fé til rannsóknar- og þróunar. Til sjóvarnargarða er varið 435 millj. kr.

Önnur verkefni sem snúa meðal annars að öryggis- og eftirlitsmálum sem og öryggi sjófarenda, þar með talinn Slysavarnaskóli sjómanna, hafa nú flust til Samgöngustofu.

Stærsti útgjaldaliður þessara hluta áætlunar er sem fyrr Landeyjahöfn. Alls er gert ráð fyrir 1,3 milljörðum verði varið til framkvæmda við höfnina á tímabilinu, m.a. til rannsókna og framkvæmda sem eiga að draga úr sandburði til frambúðar, árlegrar dýpkunar og uppgræðslu við hafnasvæðið. Þá ber að geta þess að hönnun nýrrar Vestmannaeyjaferju er nú lokið og er verkið tilbúið til útboðs.

Loks verða töluverðar framkvæmdir við Húsavíkurhöfn tengdar uppbyggingu á Bakka, en 471 milljón verður varið til þeirra framkvæmda.

Með stjórnskipulegum breytingum samgöngumála færðist viðhald og rekstur vita sem og vaktstöð siglinga til Vegagerðarinnar, en hún er áfram rekin í samstarfi við Landhelgisgæslu og Neyðarlínu.

Flugmálahluti samgönguáætlunar fjallar um áherslur og verkefni og rekstur og framkvæmdir sem nú skiptast á milli Isavia og Samgöngustofu, sem sinnir stjórnsýslu og öryggis- og eftirlitshlutverki með flugi og flugvöllum. Isavia hf. rekur flugvelli og flugleiðsögukerfi landsins. Samtals nema fjárveitingar til verkefna sem fyrirtækið sinnir samkvæmt þjónustusamningi 8,8 milljörðum á tímabilinu. Á undanförnum árum hafa fjárframlög ríkisins til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu verið skorin mikið niður. Árleg fjárþörf til viðhalds og framkvæmda er 500–600 millj. kr. í innanlandskerfið. Til að mæta uppsöfnuðum skorti á viðhaldi og framkvæmdum er þörf á allt að 1.000 millj. kr. árlega næstu árin. Það dugar þó ekki fyrir stærri framkvæmdum, svo sem flughlöðum á Akureyri og Egilsstöðum. Unnið er að endurskoðun á ýmsum þáttum er lúta að innanlandsflugi og flugvallakerfi og aðkomu hins opinbera í starfshópum á vegum innanríkisráðuneytisins sem munu mynda grunn að stefnu í samgönguáætlun fyrir 2015–2026.

Ný stefnumótandi samgönguáætlun fyrir árin 2015–2026 er nú í vinnslu. Til að tryggja vönduð vinnubrögð við endurskoðun var í samgönguáætlun 2011–2022 samþykkt að vinna valin rannsóknar- og þróunarverkefni á fyrsta tímabili áætlunarinnar sem mundu tryggja sem bestan grunn við undirbúning næstu samgönguáætlunar, 2015–2026. Samgöngustofnanirnar og samstarfsaðilar þeirra leggja til vinnu og fjárframlög í rannsóknar-, úttektar- og þróunarstefnumótunarverkefni í samræmi við ábyrgðarhlutverk í hverju verkefni samkvæmt nánari fyrirkomulagi þeirra á milli.

Virðulegi forseti. Það er afar knappur tími sem er hér til ráðstöfunar til að fjalla um samgönguáætlun í heild sinni, einungis 15 mínútur. Ég get því einungis tæpt á allra stærstu atriðunum. Það þarf þó ekki að fjölyrða um það að gott samgöngukerfi er ein af mikilvægustu stoðum innviða í hverju landi. Við Íslendingar höfum búið að því að hafa byggt samgöngukerfi okkar ágætlega upp. Í kjölfar efnahagshrunsins varð hins vegar að draga verulega saman, eins þarna og annars staðar. Nú þarf hins vegar að bretta upp ermar að nýju. Við þurfum að huga vel að viðhaldi og uppbyggingu kerfisins á næstu missirum og því var ánægjulegt að mögulegt var að veita aukin fjárframlög til Vegagerðarinnar í þessu árferði. Ég geri mér grein fyrir því að margir hefðu viljað fá meira, enda er þörfin mikil. Við skulum hins vegar líta til þess að viðbótarfjármagnið mun nýtast vel, m.a. í þau brýnu verkefni sem ég hef gert grein fyrir.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum sem komið hafa að gerð þessarar áætlunar og læt því lokið máli mínu í bili að minnsta kosti. Ég vonast eftir frjóum og gagnlegum skoðanaskiptum í umræðu meðal þingmanna, enda er þetta eitt brýnasta málið í uppbyggingu innviða í landinu sem hér er undir.