144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í stuttum andsvaraspretti er ekki hægt að koma mörgu að, en þess vegna ætla ég að taka fyrir eitt afmarkað verkefni, það varðar tekjuöflun til vegagerðar. Á undanförnum árum hafa gjaldskrár markaðra tekna ekki hækkað í takt við verðlag sem hefur rýrt mjög tekjustofna Vegagerðarinnar. Það kemur fram í þessum gögnum að hefðu tekjurnar hækkað í takt við verðlag værum við að nota 23 milljarða kr. í stað 16, það munar 7 milljörðum kr. vegna þess að markaðir tekjustofnar hafa ekki hækkað. Með öðrum orðum, þegar ríkissjóður hefur hækkað t.d. bensíngjald og olíugjöld hefur eingöngu verið hækkaður sá hluti sem rennur beint í ríkissjóð en ekki til Vegagerðarinnar.

Virðulegi forseti. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hver stefna hennar og ríkisstjórnarinnar er hvað þetta varðar, eða á þetta að halda áfram í raun og veru að, mér liggur við að segja, mélast svona niður?