144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:06]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið, en vil jafnframt taka fram og segja að ég held að þetta sé eitt brýnasta verkefnið sem stjórnmálaflokkar á Íslandi þurfa að koma sér saman um.

Í seinna andsvari mínu langar mig að spyrja um það sem snýr að hinu sama, tekjustofnum til Vegagerðarinnar bæði vegna framkvæmda, reksturs og alls þess sem þessi góða stofnun framkvæmir, eins og þeir eru gagnvart umhverfisvænum bílum. Allir hafa þá stefnu að fjölga þeim sem mest í landinu, spara innflutning á olíu og bensín, en það hefur þau áhrif að minna kemur í vegasjóð til að sjá um að byggja upp vegi og sinna viðhaldi þeirra, m.a. fyrir umhverfisvæna bíla. Í dag er það þannig að umhverfisvænn bíll, við skulum bara segja rafmagnsbíll sem notar eingöngu rafmagn, ekkert eldsneyti með, leggur ekki krónu í vegasjóð til þess að annast vegakerfið á sama tíma og allir þeir sem taka bensín og olíu leggja mikið til sem eru þessar markaðar tekjur.

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í stefnu hennar og ríkisstjórnarinnar og hvað við Íslendingar eigum að gera, (Forseti hringir.) hvort ekki þurfi að (Forseti hringir.) samræma gjaldtöku þannig að ekki sé um mismunun að ræða (Forseti hringir.) eftir því hver orkugjafinn er. Ég ítreka það sem ég segi: Það þarf að fjölga umhverfisvænum bílum, en við þurfum að huga að þessum þætti í leiðinni.