144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú svolítið hissa á þessu svari hæstv. ráðherra, því að Sundabraut fór út úr áætlun af því að sveitarfélögin vildu leggja meiri áherslu á að draga úr samgönguþunga innan höfuðborgarsvæðisins og létta þar með á stofnbrautunum út af höfuðborgarsvæðinu. Það er algjör einhugur meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að byggja upp kerfi léttlesta og hraðvagna og þar á bæ tel ég að fólk sé tilbúið til að líta til einkaframkvæmda.

Það er alveg rétt að það liggur ekki endanlega fyrir þetta skipulag, en ég tel mikilvægt og vil spyrja ráðherra: Hafa einhverjar samræður farið fram af hennar hálfu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu? Og er hún tilbúin til að skoða hvort það væri kannski betri valkostur, sérstaklega þegar við horfum til þess að eitt stærsta (Forseti hringir.) viðfangsefni stjórnmálanna hlýtur að vera váin af (Forseti hringir.) völdum loftslagsbreytinga?