144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef átt ágætt samtal við borgarstjórann í Reykjavík um ýmis atriði sem lúta að samgöngumálum sveitarfélaga, að vísu á landsvísu. Það hefur ekki verið með neinum formlegum hætti og það er engin niðurstaða komin enn þá í þetta svæðisskipulag. Sú vinna mun hafa sinn gang þegar það liggur fyrir.

Það er alveg ljóst að sú uppbygging sem verður í samgöngukerfinu á höfuðborgarsvæðinu mun auðvitað að hluta til vera á ábyrgð ríkisins. Það hlýtur þá að vera þannig að ríkið komi líka með sín sjónarmið inn í myndina. Það hlýtur að vera þannig. Ef við ætlum að ná einhverri niðurstöðu þá hljóta báðir aðilar að koma með sín sjónarmið að borðinu, það getur ekki verið þannig að ríkið eigi einungis að taka við öllum óskum sveitarfélagsins ef ríkið telur að aðrir hagsmunir skipti líka máli. Þetta hlýtur að ganga saman. Ég hef engar áhyggjur af því að það samstarf muni ekki ganga vel. Það er bara ekkert komið á það stig enn þá.