144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:14]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir framsögu hennar í þessu máli. Við horfum nú fram á það að allir hagvísar eru upp á við. Hagvöxtur er að aukast og tekjur ríkissjóðs að sama skapi, sem er jákvætt. Þessi málaflokkur hefur setið á hakanum allt frá hruni. Það hafa verið önnur forgangsmál, eins og í tíð okkar ríkisstjórnar, velferðarmálin, málefni aldraðra og þeirra sem minna mega sín, sem er mjög gott.

Ég hef bent á það að viðhaldi í vegakerfinu hefur verið ábótavant. Ég þakka sérstaklega fyrir að það eigi að ráðstafa fé upp á 500 milljónir til sérstakra viðhaldsverkefna, sem ég tel að sé mjög gott. Að öðru leyti vil ég bara segja að við gætum væntanlega gert betur. Við munum fá málið inn í samgöngunefnd þar sem við munum skoða (Forseti hringir.) hina og þessa kosti. Það væri ágætt að fá (Forseti hringir.) viðbrögð frá innanríkisráðherra, hvort hún sé ekki sammála um að þetta sé jákvætt, (Forseti hringir.) stórt og mikið skref. En að sjálfsögðu munum við reyna að gera betur á næstu árum.