144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Dettifossvegur hefur verið í bígerð og menn hafa verið að potast áfram með hann í mjög langan tíma. Hann er afskaplega dýr framkvæmd. Það er kannski ástæðan fyrir því að við höfum þurft að fresta honum ítrekað. Ég vonast til að þeir sem hafa horft til hans gleðjist yfir því að við séum þó að potast áfram með hann á þessu tímabili.

Síðan er það mín skoðun að mikilvægt sé að aðgengi sé bætt að fjölförnustu ferðamannastöðunum. Ég held að betra aðgengi til Þingvalla, með þeim tillögum sem hér eru uppi, muni skipti verulega miklu máli. Saman fara þá framkvæmdir sem lengi hafa verið í bið og hafa oft þurft að víkja fyrir öðrum og í leiðinni framkvæmdir til að mæta þeim vexti sem hefur orðið í atvinnugreininni, ferðaþjónustunni, og ekki síst öryggismál því að margir þessir vegir eru stórhættulegir. Það var þörf á að mæta því líka. Við megum ekki gleyma öryggismálum þegar við lítum til uppbyggingar í samgöngukerfinu.