144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:20]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu um þetta mikilvæga plagg sem nú liggur fyrir Alþingi til umræðu. Ég verð að lýsa yfir nokkrum vonbrigðum mínum með þá hlutdeild sem höfuðborgarsvæðinu er ætlað í þessari áætlun og fæ nú reyndar ekki betur séð en að höfuðborginni sjálfri sé ekki ætlaður nokkur hluti í nokkrum framkvæmdum. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé vegna sérstakrar óskar borgaryfirvalda þar að lútandi vegna þess, eins og hefur komið fram í andsvörum, þá er það einhver sérstök stefna borgaryfirvalda í dag að takmarka bílaumferð. Mér hefur þótt það vera á kostnað umferðaröryggis. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvort þær fjárhæðir sem hér eru ætlaðar til höfuðborgarinnar, (Forseti hringir.) sem eru nákvæmlega engar, séu í fullu samræmi og samráði við yfirvöld borgarmála.