144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að fjárframlög til höfuðborgarsvæðisins eru rýr og ég hef sjálf lýst því yfir að mér finnist þau vera of rýr og ég hef líka látið koma fram á þeim fundum sem ég hef átt við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að það þurfi að gera miklu betur í því. Stærsta framkvæmdin á þessu sviði núna er Arnarnesvegur. Það er alveg rétt, hann er ekki í höfuðborginni Reykjavík. En það verður að hafa í huga að í gildi er samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem undirritað var á síðasta kjörtímabili sem gerði beinlínis ráð fyrir því að það ætti ekkert að fara í framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Það samkomulag verður næst endurskoðað árið 2016. Ég tel hins vegar alveg óviðunandi að menn ætli að stilla þannig upp, og ég fellst ekki á þá aðferðafræði, að það eigi annaðhvort að vera bara með bílaumferð eða bara með hjólreiðaumferð, ef ég set öfgarnar fram, virðulegi forseti, ef ég leyfi mér að koma með öfgaumræðu. Það getur aldrei gengið. Það er þörf á því að fara í mikið viðhald á höfuðborgarsvæðinu. Við lítum (Forseti hringir.) til þessarar viðbótarinnspýtingar að hluta til þess að mæta því, (Forseti hringir.) þess vegna var sérstaklega tekið fram að það ætti að líta til höfuðborgarsvæðisins í því. Ég get (Forseti hringir.) alveg fallist á það með hv. þingmanni og hef lýst því margoft yfir sjálf og líka þegar ég var (Forseti hringir.) í stjórnarandstöðu að það þarf að gera miklu betur þegar kemur að samgönguframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu.