144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að vera sammála hv. þingmanni um það, þarna er um að ræða framkvæmd sem er mjög brýn, hún er líka mjög brýn fyrir alla íbúa á þessu landshorni. Það er alveg rétt, það er gert ráð fyrir 2+1 vegi. Þetta er alltaf spurning um hvernig við eigum að haga áframhaldandi stefnumörkun. Ég tel að á vissum stöðum að minnsta kosti sé skynsamlegt að líta meira til 2+2 vegar, en þá ber að hafa í huga að þessi vegur er hannaður sem 2+2 vegur. Þannig að þótt hann verði núna byggður sem 2+1 þá er hönnunin með þeim hætti að auðvelt er að breikka hann í 2+2. Það held ég að hljóti að vera skynsamleg stefna fyrir okkur, a.m.k. til skemmri tíma, ef við höfum ekki ráð á því að fara beint í 2+2 þá högum við að minnsta kosti hönnuninni þannig að við höfum eitthvert svigrúm þegar við horfum aðeins lengra fram í tímann — sem við Íslendingar eigum stundum dálítið erfitt með að gera — en að við hugsum með okkur: Já, það er líklegt (Forseti hringir.) að að einhverjum árum liðnum þurfum við að breikka veginn í 2+2.