144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:39]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir svarið. Ég held að við séum á svipuðum nótum hvað þetta varðar, ég segi fyrir mig að ég held að við ættum að forðast gjaldstöðvar, alla vega í þeirri mynd sem við sjáum við Hvalfjarðargöngin þar sem fólk þarf að stoppa með tilheyrandi umferðartöfum. Mér líst ágætlega á þá hugmynd hv. þingmanns að það verði greitt eftir eknum kílómetrum, það segir sig sjálft að þeir sem aka meira slíta vegunum meira. Nú lærði ég það í verkfræðinni að vörubifreiðar sem eru allt að 40 tonn að þyngd slíta vegunum á við 200 þús. fólksbíla. Mig langar að inna hv. þingmann eftir því, ef hann hefur skoðun á þessu, hvort við séum með of lágt gjald á vörubifreiðum eða þungaflutningum. Annars held ég að við deilum skoðunum í þessu, það ber alla vega ekki mikið í milli.