144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það eru samt nokkur atriði sem ég vildi að hefðu verið aðeins öðruvísi. Ég hefði til dæmis viljað að þingmaðurinn hefði fagnað því að nú sé hægt að setja fjármuni í verkefni sem ekki var hægt að setja í á síðasta kjörtímabili. Ég hefði líka viljað heyra hv. þingmann þakka fyrir þá samstöðu sem náðist til að mynda um Vaðlaheiðargöng þegar flokkur hans klofnaði, þingmenn Framsóknarflokksins kusu þá framkvæmd áður.

Svo vil ég aðeins koma inn á Íslandsmetið. Er ekki hv. þingmaður að ruglast? Er það ekki þannig að hér var slegið Íslandsmet árin 2008–2009 þegar farið var í Bolungarvíkurgöng og Héðinsfjarðargöng? Maður getur velt fyrir sér hvort tímasetningin hafi verið rétt í þeirri þenslu sem þá var, þótt ég sé mjög hlynntur báðum framkvæmdunum. Þetta var kannski pínu olía á eldinn og ríkisútgjöldin í heild sinni, langt umfram það sem eðlilegt var á þeim tíma. En þetta var ekki á síðasta kjörtímabili, þetta var á árunum 2007–2009. Það sem er merkilegt er að allar eða að minnsta kosti mjög margar af þeim framkvæmdum sem þá var farið í, og reyndar á síðasta kjörtímabili, voru ákveðnar á árunum 2003–2007. Ég velti því fyrir mér þegar menn tala um Íslandsmet síðustu ríkisstjórnar hvort hér sé ekki Íslandsmet í því að skreyta sig með stolnum fjöðrum.