144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:49]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hér á þingi hafi menn í allflestum tilfellum verið sammála um það sem lagt er til og á að gera. Menn eru hins vegar ósammála því að fresta eða slá út af borðinu, þar liggur munurinn. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni hin ágætu Norðfjarðargöng og framkvæmd við þau og þakka ég honum kærlega fyrir að minnast á það. Á hvaða tíma voru þau sett í gang? Vissulega seinkaði áætlun um sennilega tvö og hálft ár frá því að fyrsta samgönguáætlun var samþykkt um þau 2007 en það var út af hruninu, það var ekkert annað. En það tókst á því erfiðleikatímabili, þrátt fyrir fjárskort ríkisins, að setja þá framkvæmd í gang, sem gerir það að verkum að framkvæmdin er á fullri ferð. Má ég aðeins minna hv. þingmann á að í fyrsta fjárlagafrumvarpi núverandi ríkisstjórnar stóð eitthvað á þá leið að því miður væri búið að gera samning um Norðfjarðargöng og því ekki hægt að fresta þeirri framkvæmd.

Hæstv. forseti. Hvað fólst í þeim skilaboðum frá núverandi stjórnarflokkum? (Gripið fram í.) Í þeim fólst að í fyrsta fjárlagafrumvarpi sem ríkisstjórnin gerði voru menn að hugsa um að skera þá framkvæmd niður, en það var ekki hægt. (Gripið fram í: Nei, nei, nei, nei …) Hæstv. forseti. Ég er að vitna í skrifaðan texta í fjárlagafrumvarpi þannig að ekki þarf að deila um það. En það tókst sem betur fer að skrifa undir á réttum tíma, þannig að núverandi ríkisstjórn gat ekki skorið þá framkvæmd niður. Ég get alveg sagt það og viðurkennt að þetta var auðvitað það sem við ætluðum okkur að gera, að skrifa undir áður en niðurskurðarhnífurinn færi á loft, enda erum við, eins og ég segi, ósammála um þessa samgönguáætlun. Ég er sammála mörgu sem er í henni en ég er ósammála því hversu lítið á að auka við. Á árinu 2017/2018 á framlag ríkissjóðs til dæmis að minnka um 1 milljarð.