144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og sérstaklega fyrir að minnast á margt af því jákvæða að hans mati í þessari þingsályktunartillögu. Mig langaði að spyrja þingmanninn út í eitt atriði vegna þess að hann kom inn á þann veruleika sem við Íslendingar höfum því miður búið við varðandi framkvæmdir að kostnaður hefur aukist. Ég bendi til dæmis á kostnað við byggingu Hörpu. Ef ég man rétt þá var hann áætlaður um 6 milljarðar kr., en endaði einhvers staðar í 32 milljörðum, hann nánast sexfaldaðist, ef hann er þá ekki kominn upp í 36 núna.

Varðandi Húsavíkurgöng. Það er rétt, þau voru sett inn í áætlun, en ég get ekki betur séð en að Vegagerðin hafi á sínum tíma bent á að verið væri að miða við frumgögn og það vantaði kannski betri gögn, en það var mikil og breið samstaða um þetta á síðasta kjörtímabili og ég studdi þá framkvæmd heils hugar. Ég studdi síðustu ríkisstjórn í að samþykkja þetta og ég man ekki betur en að hv. þingmaður hafi gert það líka. Þetta var í kringum 2012.

Varðandi Vaðlaheiðargöng þá vil ég kannski að einhverju leyti bera þau saman við Landeyjahöfn, tvær mjög mikilvægar samgönguframkvæmdir. Síðan koma ófyrirséðir hlutir sem menn eru sammála um að hefðu á sínum tíma verið fullrannskaðir. En náttúra Íslands er því miður þannig að eitthvað bætist við. Ég er mjög á því að báðar þessar framkvæmdir eigi rétt á sér. Ég er mikill stuðningsmaður Landeyjahafnar.

En ég vil spyrja hv. þingmann: Þótt við séum sammála um þennan kostnað er það vinnandi vegur að við algjörlega geirneglum (Forseti hringir.) kostnaðinn, verðum við ekki að horfa til þess landslags sem er hér á Íslandi?