144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:12]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Forseti tengdi mig áðan við Suðurkjördæmi. Það er rétt að ég var þingmaður Suðurkjördæmis á síðasta kjörtímabili og áður en ég varð það fór ég í framboð í Suðurkjördæmi og var spurður þegar ég var í vinnustaðaheimsókn í Vík í Mýrdal hvort ég mundi ekki styðja menn í því að láta gera jarðgöng í gegnum Reynisfjall. Ég vissi að Dyrhólaós væri á náttúruminjaskrá og að menn þurftu þá að breyta í verulegum dráttum veglínunni og fara yfir Dyrhólaósinn. Svo finnst mér hálsinn sem er yfir eftir götubrúnina í Mýrdalnum ekki svo svakalegur þannig að mér fannst þetta frekar óráðlegt og sagði: Nei, það finnst mér ekki mjög skynsamlegt. Þá upplifði ég í fyrsta skipti að það var skoðun og álit sveitarstjórnarmanna í kjördæmum að þingmenn kjördæmisins ættu alltaf að vera sammála heimamönnum um áherslur í vegamálum. Mér finnst eima eftir af því sjónarmiði, að það sé litið svo á þegar kemur að samgöngumálum að þingmenn eigi að vera að ná í fjármagn fyrir sitt heimahérað. Ég er ósammála þeirri tilhögun. Ég held að það sé ekki jákvætt.

Ég held að meginhlutverk þeirrar stofnunar sem við vinnum í sé að setja lög um samfélagið sem við búum í. Það eru einfaldlega menn sem eru betur til þess færir en ég að ákveða hvar nákvæmlega skóinn kreppir í samgöngumálum, hvernig vegi við eigum að gera, hvernig þeir eigi að liggja og þar fram eftir götunum, hvar mesta hættan er, hvar umferðarþunginn er mestur o.s.frv. Auðvitað er mikilvægt að hafa þekkingu þingmanna á landi sínu og kjördæmum, en það leiðir einfaldlega oft til þess (Forseti hringir.) að menn byggja það ekki endilega á bestu fáanlegu upplýsingum sem þeir halda fram hér.