144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:29]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað hv. þm. Ögmundur Jónasson heldur. Heldur hann að peningar til vegaframkvæmda komi annars staðar frá en úr vösum skattgreiðenda, þótt hann hafi látið að því liggja að hann væri mjög ósáttur við það? En ég ætla nú ekki að fjalla um það.

Ég vildi gera athugasemd við andstöðu hans við hina svokölluðu 2+2 vegi. Út af andsvari hans við ræðu hæstv. innanríkisráðherra nefndi ég veginn á milli Hveragerðis og Selfoss sem hefur í áratugi verið vettvangur hörmulegra slysa. Ég nefndi það að mér hugnaðist ekki sú tilhögun að fara í 2+1 veg þar og ég hef ástæðu fyrir því. Mér skilst að það sé þannig að ekki verði vegrið þar á milli, að ekki sé gert ráð fyrir vegriði á milli þessara vega. Ég hef rökstuddan grun um að það skapi jafnvel meiri hættu en ella, slík framkvæmd, þar sem mögulega er aukinn hraði á hinum tvöfalda vegi, en umferðin sem kemur á móti er þar óvarin.

Ég vil spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson hvort það sjónarmið að hvetja frekar til þess, þegar farið er í framkvæmdir, að huga að minnsta kosti að þeim möguleika að hafa vegina tvöfalda beggja vegna, geti ekki verið í þágu umferðaröryggis og öryggis almennings á sama hátt og þegar fjármagn er veitt í heilbrigðisþjónustu.