144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:33]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að halda því til haga að ég fékk þær upplýsingar, eftir andsvar mitt hér áðan, að vissulega er gert ráð fyrir vegriði á þessum tiltekna vegi á milli Selfoss og Hveragerðis, þessum 2+1 vegi. Ég fagna því auðvitað. Ég nefndi þetta hins vegar vegna þess að dæmi eru um vegi þar sem ekki eru vegrið og ég fagna því að sjálfsögðu ef hv. þm. Ögmundur Jónasson er þá sammála mér í því, leggst að minnsta kosti ekki gegn því, að þessi vegur verði þó tvöfaldaður. Það er framkvæmd sem auðvitað felur í sér útgjöld.

Ég tel að við ættum að huga að vegakerfinu í heild og ekki líta til skamms tíma í því. Þess vegna fagna ég því sem fram kom í ræðu hæstv. innanríkisráðherra, að gert verði ráð fyrir tvöföldun á þessum vegi. Það má ekki gleyma því að þessi vegur er einn fjölfarnasti vegur landsins. Þarna verða reglulega hörmuleg slys. Ég tel að menn eigi að gera allt hvað þeir geta til þess að stemma stigu við því og ég verð að treysta því, ef menn meta það svo, að svokallaður 2+1 vegur með vegriði svari þeim kröfum.