144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:55]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa skroppið í matsalinn, en ég heyrði hluta af því sem hv. þingmaður talaði um. Það sem mig langar að spyrja hann um hér í fyrra andsvari, og þá leyfi ég mér að fara inn á okkar svæði, er: Hvað finnst hv. þingmanni um það að á þessu ári verði aðeins um 300 millj. kr. varið í almennar vegaframkvæmdir á okkar svæði?

Virðulegi forseti. Ég hef farið í kjördæmaferð með hv. þingmanni og hlustað á sama talið frá sveitarstjórnarfólki, eins og til dæmis á Þórshöfn, í Borgarfirði eystra og víðar, þar sem mér sýnist að verið sé að taka fyrirhugaðar framkvæmdir út úr áætluninni og færa þær aftar. Á okkar svæði, norður- og austursvæði, sem heitir Norðausturkjördæmi, eru eingöngu um 300 millj. kr. á þessu ári og það vex nú ekkert voðalega mikið á ári þar á eftir. Á norðursvæði eru 200 milljónir. Ég vil geta þess að þar af eru 59 milljónir alltaf inni til undirbúnings framkvæmda. Er þetta ásættanlegt?