144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:57]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá þingmaður sem stendur hér er þannig þenkjandi að jafnvel þó að við mundum margfalda framlögin í þennan málaflokk mundi hann samt vilja gera betur. Ég hef margítrekað lýst því yfir að það að bæta samgöngukerfið þýðir fyrst og fremst að verið er að bæta lífsskilyrði fólks hringinn í kringum landið. Þetta er kannski það tæki sem mundi styðja best við byggðaþróun sem dæmi.

Já, ég mundi vilja sjá aukið fjárframlag, ég viðurkenni það hiklaust. En um leið er ég auðmjúkur gagnvart því að við þurfum að setja fjármuni í aðra málaflokka eins og velferðarmálin. Ég vil líka benda á að á síðasta kjörtímabili var tekin ákvörðun um að fara í miklar stórframkvæmdir, þ.e. veita fjármagn í stórframkvæmdir sem voru í forgangi. Við í Framsóknarflokknum studdum þær aðgerðir mikið. En ég benti þá á, eins og hv. þingmaður gerir nú, að það séu verkefni sem mætti setja fjármuni í.

Eins og ég sagði í ræðu minni erum við kannski að nálgast þann stað núna að hægt verði að fara af stað með mörg hin minni verkefni, sem, eins og hæstv. innanríkisráðherra benti sjálf á, voru algjörlega sett til hliðar á síðasta kjörtímabili, til að greiða fyrir þessum stórframkvæmdum sem ég studdi dyggilega.