144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að tala um stórframkvæmdir við Norðfjarðargöng í okkar kjördæmi. Þau hafa oftast nær verið fjármögnuð öðruvísi en af hefðbundnu vegafé, það er það sem heitir framlag ríkissjóðs. En það sem ég er að spyrja hv. þingmann út í er að á norðursvæði eru veittar 262 milljónir á þessu ári, þar af 50 milljónir í undirbúning utan áætlunar, sem er bara hefðbundin tala til þess að fara á staðinn og vega og mæla upp og undirbúa frekari framkvæmdir. En árin þar á eftir, 2016, 2017 og 2018, er eingöngu 150 milljónum varið til framkvæmda á hverju ári á norðursvæði. Þetta er fyrsta spurningin og ég ítreka hana: Telur hv. þingmaður — sveitarstjórnarmenn hafa verið að tala um þessa staði og aðra sem ég nefndi áðan — að óskir þeirra séu uppfylltar með þessu?

Í öðru lagi varðandi Dettifossveg, vegna þess að hv. þingmaður var að tala um hann áðan: Hvað finnst honum um þær 800 milljónir sem teknar voru á síðustu árum í framkvæmdir við Dettifossveg? Fyrrverandi innanríkisráðherra sagði: Þetta var eingöngu tekið að láni til að fara í viðhald á malarvegum og því verður skilað til baka fullkomlega og framkvæmdir boðnar út. Það var fyrir ári en gekk ekki eftir. Núna eru eingöngu veittar 212 milljónir af 2,4 milljörðum sem voru í seinni áfanganum á Dettifossvegi og ekkert árið 2016, 2017, 2018 og síðar. Hvað finnst honum um þá ráðstöfun?