144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[14:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018, sem er býsna seint á ferðinni og greinilegt að ætlast er til að fái mjög lítinn tíma á hv. Alþingi. Áætlunin er auðvitað unnin eftir ákveðnum leikreglum og samgönguráð gerir sínar tillögur. Ég sakna þess raunar í þessari áætlun að það skuli ekki vera skýrari áherslur á forsendunum, hvernig þetta var unnið og rökstuðningnum á forgangsröðuninni sem birtist í áætluninni.

Ég held að þetta sé eitt af þeim dæmum sem við höfum verið að ræða í þinginu af ýmsum ástæðum, þ.e. það eiga að koma fram áætlanir sem eru lagðar fyrir þingið, hljóta vandaða umfjöllun, þingið mótar stefnuna og síðan er farið í framkvæmdir og fjármagn sett inn í fjárlög til þess að tryggja framgöngu málsins. Ef þetta er ekki unnið þannig að ferlið sé opið og menn fái að fylgjast með hvernig þetta er gert þá er hætt við að ýmislegt tapist á leiðinni og áætlunin verði ekki eins vönduð og hún þyrfti að vera. Við þetta bætist svo þau vinnubrögð sem hafa birst síðustu sólarhringana þegar hæstv. ríkisstjórn hefur verið að bæta í pottinn, ekki bara upphæðum sem er út af fyrir sig er virðingarvert ef menn hafa svigrúm til að bæta við fjármagni í vegamálin á þessu ári heldur með úthlutun á fjármagni til einstakra framkvæmda.

Ég ítreka þá spurningu sem ég heyrði að kom frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að það væri ágætt að fá skýringar á því hvernig það var ákveðið og hvort það hefði farið fyrir samgönguráð með hvaða hætti skyldi standa að því viðbótarfjármagni.

Nú vitum við að þessi áætlun hefur tafist meðal annars vegna þess að hún fór út til þingflokkanna. Þeir voru ósáttir við það sem var í áætluninni og þess vegna var hún send til baka til frekari vinnslu og út af fyrir sig er ekkert hægt að gera athugasemdir við það nema bara að það vissu allir að málin áttu að vera komin inn í þingið fyrir mánuði síðan og hefði verið betra að fá lengri tíma.

Eins og alltaf hefur hver sína skoðun á því sem er í áætluninni. Ég tek strax eftir því þegar ég lít á þessa áætlun að við erum að horfa fjögur ár fram í tímann og það eru engar lagfæringar á veginum um Kjalarnes. Menn hafa verið með hugmyndir um Sundabraut og það er ljóst að vegurinn verður með svipuðu sniði á Kjalarnesi. Þar er umferð orðin þannig að hún er mjög hættuleg í ákveðnum veðrum og mjög hæg. Það eru ekki allir að fara þá stuttu leið sem ég fer að fara frá Akranesi til Reykjavíkur, heldur er þetta oft endir á leiðinni frá Akureyri eða austan af landi. Ég hef sagt að það sé auðvelt í sjálfu sér sem fyrsta skref að setja 2+1 á hluta af leiðinni til þess að létta á umferð og liðka fyrir þannig að menn þurfi ekki að vera á ferðinni þarna á eftir bílum eða farartækjum sem keyra á 30, 40 eða 50 km hraða og engin leið er að fara fram úr á þessari leið nema taka einhverja áhættu. Ég vek athygli á að þarna hefur einhverra hluta vegna, sennilega vegna Hvalfjarðarganganna á sínum tíma, þessi leið orðið eftir, þ.e. ef við berum hana saman við 2+2 veginn til Keflavíkur og ef við berum hana saman við mjög góðar og miklar framkvæmdir á Suðurlandsveginum til Hveragerðis. Hér í áætluninni er einmitt 2+1 á leiðinni milli Hveragerðis og Selfoss, um 1,5 milljarðar.

Á svæðinu á Vesturlandi er svo Uxahryggjaleið sem kemur inn sem viðbótarverkefni, þ.e. aukin áhersla er á þá ferðamannaleið. Það er ekki nóg að það sé bara áhersla lögð á ferðamannaleiðir. Það þarf auðvitað að tryggja að almannaleiðir séu settar í forgang samkvæmt markmiðum um hagkvæmar samgöngur, að þeim sé sinnt ekki síður en ferðamannaleiðunum.

Það er ástæða til að fagna að Vestfirðirnir fá verulegar bætur. Ef menn taka dæmi um verkefni þar sem þeir reikna út hagkvæmnina á bíl þá er hún ekki mest á þessum leiðum. Þarna er eingöngu verið að leggja grunnvegi. Við skulum vona að það náist samkomulag um að koma veginum í gegnum Teigsskóg þannig að það verði hægt að fara í þær framkvæmdir með þá 2,7 milljarða sem eru í áætluninni og ljúka þá verkinu Eiði–Kjálkafjörður sem settar verða 500 milljónir í á þessu ári. Dýrafjarðargöngin koma síðan sem næsta stóra gangaframkvæmd eftir Norðfjarðargöngum og vonandi verður þeim ekki seinkað. Hér hafa verið fluttar tillögur um að flýta þeirri framkvæmd, m.a. af stjórnarliðum, en það er ekki í þessari áætlun. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni þarf líka að tryggja að Dynjandisheiði verði lagfærð, en í það verk fara 850 milljónir á árunum 2017–2018.

Eitt af því sem ég tók eftir þegar ég fór yfir þessa áætlun var gjaldtaka á umferð. Mér er sagt að umfjöllun um það komi í tíu ára áætluninni, þ.e. næstu áætlun sem vantar til hliðar við þessa. Til margra ára hefur gjaldtaka á landinu eingöngu miðast við eina leið, inn og út úr Reykjavík, þ.e. vesturlandsleiðina í gegnum Hvalfjarðargöng. Nú vitum við alveg hvernig staðið var að því á sínum tíma. Ég tók sjálfur þátt í því að koma Hvalfjarðargöngum á og studdi að þau yrðu einkaframkvæmd, en fyrir lifandis löngu hefði átt að vera búið að leggja niður gangagjaldið vegna þess að það er einfaldlega búið að vinna jafn stórar og enn þá stærri framkvæmdir, m.a. á Keflavíkurleiðinni, Suðurlandsveginum o.fl., sem hefur verið valið að taka ekki gjald af. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að menn fari að tryggja það og það komi inn í tíu ára áætlunina að göngin verði gjaldfrjáls frá 12. júlí 2018 því að þá verða liðin 20 ár og þá á Spölur að afhenda ríkinu göngin til rekstrar.

Ákveðnir hópar hafa rætt að það eigi að vera áfram gjaldtaka á þessari leið. Það hefur meðal annars verið rætt í tengslum við Sundabrautina. Ég tel að það sé útilokað að menn leggi áfram gjöld á aðeins eina leið út úr bænum. Menn verða þá að taka á gjaldtökunni heildstætt og tryggja breytt form á gjaldtöku og miða hana við allar nýframkvæmdir, ef fara á þá leið. En krafan er afdráttarlaust sú að göngin verði gjaldfrjáls 12. júlí 2018.

Í framhjáhlaupi má geta þess að gjaldið í göngin hefur sigið niður á við, en þó var á síðustu dögum hækkun upp á 16% af gangagjaldinu sem er fróðlegt að skoða í tengslum við kjarasamninga og annað.

Ég ætlaði líka að vekja athygli á því að áherslurnar sem lagðar eru í svona plaggi geta verið spennandi. Á bls. 23 í tillögunni eru markmið um hagkvæmar samgöngur og fjallað ítarlega um þær. Fimm atriði eru nefnd og síðan kemur kafli um hvernig eigi að ná þessum markmiðum. Það sem mér finnst mikilvægt að skoða er aðgengi fatlaðra sem er sérstakur liður númer 15 af 16 liðum alls þess sem þarf að leggja áherslu á. Það finnst mér vera vond forgangsröð. Mér finnst að menn eigi að setja það miklu ofar. Það sama á við um almenningssamgöngur sem eru töluvert oft nefndar hér og skipta líka gríðarlega miklu. Þar eru mjög óljós atriði í 11. lið á bls. 22, með leyfi forseta:

„Almenningssamgöngur verði endurskoðaðar á grundvelli nýrra laga um farþegaflutninga á landi. Skipulag miðist við heildstætt kerfi og gætt verði jafnræðis í stuðningi ríkisins við framkvæmdaaðila.“

Hvað þýðir þetta? Það eru engar skýringar á þessu. Hvar sér þess stað í áætluninni? Það er að vísu samkomulag við Reykjavíkurborg um uppbyggingu á almenningssamgöngum í borginni, en það er mikill hiti víða úti á landi vegna þess að menn virðast hafa tilhneigingu til að taka arðsömustu leiðirnar út úr verkefnum landssamtaka sveitarfélaganna og fela þær einkafyrirtækjum sem geta haft af því verulegan hagnað á sama tíma og ríkið á að borga hallann af hinum leiðunum. Þetta er vond leið ef menn treysta sér ekki til að taka almenningssamgöngurnar á heilu svæði og setja arðbæru leiðirnar líka undir áætlunina.

Í 2. lið undir markmiðum um greiðar samgöngur segir, með leyfi forseta:

„Skilgreind verði vinnusóknarsvæði í samræmi við sóknaráætlun landshluta og leitast við að stytta ferðatíma innan þeirra og stækka þau.“

Það eru engar skýringar á hvað átt er við með þessu. Hver eru þessir vinnusóknarsvæði? Það er búið að vera að vinna að þessu í sóknaráætlunum en það liggur ekki fyrir í neinni niðurstöðu. Það er töluvert af fallegum orðum hér sem er nauðsynlegt að fá túlkun á í umfjöllun nefndarinnar. Ég sakna þess. Eins og ég sagði í upphafi ræðunnar þyrfti að vera meira bakgrunnsefni um hvað liggi að baki þessari áætlunargerð út frá þeim forsendum sem menn gefa sér í þeim markmiðum sem birtast samhliða áætluninni.