144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[14:55]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni um að samgönguáætlun sé komin fram og þakka hæstv. ráðherra fyrir það. Ég get alveg tekið undir þau orð sem hafa verið sögð í ræðum í dag og eins og hæstv. ráðherra benti á að auðvitað vildum við öll sjá hana koma fram fyrr, en hér er hún komin, við erum að taka umræðu um hana og hægt verður að fara í efnislega vinnslu málsins.

Ég er aðallega búin að blaða í henni og skoða það sem viðkemur þeim svæðum sem ég vinn að og þar vil ég byrja á að tala um Vestfjarðaveg. Það er afar ánægjulegt að sjá að Vestfjarðavegur er inni í samgönguáætlun, það er nauðsynlegt og það hefur hann reyndar verið áður. Í ræðu minni fyrir ekki svo mörgum dögum síðan, fyrir viku eða svo, lýsti ég áhyggjum yfir því að ferlið væri enn hjá Skipulagsstofnun en örfáum dögum síðar komu fréttir um að Skipulagsstofnun hefði tekið jákvætt í erindið og hægt væri að halda áfram vinnu við fyrirhugaða veglínu.

Vestfjarðavegur er gríðarlega mikilvægur fyrir meðal annars sunnanverða Vestfirði. Þar er mikil uppbygging í gangi, ný fyrirtæki að festa þar rætur sem þurfa á öruggum samgöngum að halda. Ef við horfum bara á íbúa svæðisins þá hefur þróunin verið sú til fjölda ára að þeir hafa sífellt meir þurft að sækja ýmsa þjónustu til Reykjavíkur eða suður úr og hafa þurft að reiða sig á þessa ótraustu vegi um hálsana og hjallana sem eru oft lokaðir í vondum veðrum og stórhættulegir vegna bleytu eða hálku. Það er nauðsynlegt fyrir þetta fólk að fá láglendisveg og því er ánægjulegt að ferlið sé nú í fullum gangi og reynt sé að klára það og finna farsæla lausn og við sjáum það á samgönguáætlun að byrjað verður af fullri alvöru árið 2016, sýnist mér. Einnig hefur komið fram í orðum hæstv. ráðherra að vonir standi til þess. Ég vil líka þakka fyrir það að í þessu ferli hingað til hafa þingmenn norðvestursvæðisins fengið að fylgjast verulega náið með því sem hefur verið að gerast í málefnum Vestfjarðavegar og samgöngum á Vestfjörðum. Ég vona að við fáum að fylgjast áfram með þeim jákvæðu skrefum sem við sjáum vonandi í framhaldinu því það skiptir miklu máli þegar íbúar svæðisins hafa áhyggjur af þessum málum að við getum svarað þeim og vil ég brýna hæstv. ráðherra til að halda áfram á þeirri braut.

Ef við tölum aðeins um jarðgöng þá eru Dýrafjarðargöng annað mikilvægt mál fyrir Vestfirði. Ef við horfum á Vestfirði í heild sinni þá er mikil uppbygging í gangi víðast hvar. Til þess að nýta þá kosti sem allra best og samlegðaráhrifin milli suður- og norðurfjarða Vestfjarða varðandi flutning til og frá svæðunum eru Dýrafjarðargöng afar mikilvæg. Yfir vetrartímann er leiðin frá Patreksfirði til Ísafjarðar um 600 kílómetrar, að mig minnir, en yrði kannski í kringum 200 kílómetrar ef Dýrafjarðargöng kæmu til, en þá þurfum við líka að hafa Dynjandisheiðina í lagi þannig að það þarf að horfa til allra þessara þátta. En ég fagna þessu.

Ég sé að hér er inni fjármagn varðandi snjóflóðavarnir í Súðavíkurhlíð. Vonandi fáum við göng um það svæði í nánustu framtíð því að við sjáum að svæðin einangrast yfir verstu vetrarmánuðina vegna snjóflóðahættu og af því að vegurinn er hættulegur.

Annað mikilvægt mál sem hefur verið í umræðunni til fjölda ára er vegurinn í Árneshreppi á Ströndum. Þar vil ég leggja áherslu á að það þarf að hafa samráð við íbúana sem þar búa. Í samgönguáætlun er inni fjármagn fyrir það svæði, en mikilvægt er að hafa samráð við íbúana sem þekkja aðstæður einna best um það hvernig eigi að bregðast við og hvaða hugmyndir eru þar uppi.

Mér sýnist því margt gott í þessari samgönguáætlun þótt við viljum auðvitað alltaf sjá hlutina gerast hraðar, ég er ein af þeim sem vilja eiginlega að allt gerist í gær. En mér finnst jákvætt að þessi atriði séu komin inn í samgönguáætlun.

Ég vil vera alveg hreinskilin með það að þegar við þingmenn Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi höfum farið um kjördæmið þá heyrum við alls staðar raddir um að það þurfi að bregðast við þessu og hinu af því að þörfin er mikil fyrir vegaframkvæmdir víða, ekki bara á Vestfjörðum heldur víða í kjördæminu og reyndar alls staðar um landið. Við getum nefnt héraðs- og tengivegi sem eru illa farnir og þarfnast verulegs viðhalds, til dæmis héraðs- og tengivegi sem liggja að fjölförnum ferðamannastöðum og þar þarf gríðarlegt fjármagn. Ég hefði gjarnan viljað sjá meira fjármagn í þá vegi en veit að það er ekki til endalaust af því, en vil samt leggja það inn í umræðuna að afar mikilvægt væri að hafa nægt fjármagn til viðhalds, sama hvar við lítum á landið.

Mig langar að nefna aðeins Sundabraut í ræðu minni. Ég bý á Akranesi og þar búa tæplega 7 þús. manns og mörg hundruð manns fara þaðan á hverjum degi annaðhvort í skóla eða vinnu í Reykjavík — fyrir nokkrum árum heyrði ég að það væru 700 manns — og það er gríðarlega mikilvægt að samgöngur þar á milli séu góðar. Þær eru ágætar í dag, en ég sé að Sundabraut er inni í samgönguáætlun og þar er talað um að leitað verði leiða til að fjármagna hana með aðkomu einkaaðila. Nú er það svo að íbúar eða allir þeir sem fara frá Reykjavík og vestur eftir þurfa að fara í gegnum Hvalfjarðargöngin og borga fyrir það. Mig langar í því samhengi að leggja til að reynt verði, ef um einkaframkvæmd verður að ræða, að stilla þeirri skattlagningu í verulegt hóf. Það kom í ljós í svari við skriflegri fyrirspurn sem ég sendi á innanríkisráðherra í vetur að það eru að stórum hluta íbúar Vesturlands, Borgarfjarðar, Akraness, sem hafa borgað einna stærstan hluta gangagjaldanna frá því að göngin voru opnuð. En Sundabraut yrði mikil samgöngubót og mundi færa Akranes mun nær höfuðborginni, það hefur sína kosti og galla, og ég vil nefna í því samhengi að mjög mikilvægt er að hafa samráð við íbúa svæðisins og fá fram hvaða hugmyndir þeir hafa um þetta. Ég veit og hef fengið upplýsingar um það að mikil vinna hefur verið unnin með Reykjavíkurborg varðandi Sundabraut, vegna þess að deilur hafa verið uppi um hvar brautin ætti að koma inn í Reykjavík, hvar innkeyrslan inn til Reykjavíkur ætti að vera. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið er verið að koma verulega til móts við þær skoðanir sem hafa verið uppi á teningnum í Reykjavík og koma inn í gildandi aðalskipulag Reykjavíkurborgar og það er mikilvægt að reyna að hafa sátt í þessum málum. Ég tel að Sundabrautin gæti haft jákvæð áhrif fyrir Vesturland, til dæmis vegna ferðamanna. Ef við horfum bara á Akranes og það svæði þá er það nú stundum þannig að það er svo langt að fara eitthvert frá höfuðborginni en ekkert mál að fara utan af landi til höfuðborgarinnar, það er einhvern veginn alltaf styttra. Ég tel að það gæti falið í sér mörg sóknarfæri fyrir Vesturland og það svæði ef Sundabrautin yrði að veruleika, en mig langar í því samhengi að benda á að aukaskattlagning verði ekki of mikil á íbúa þessara svæða, en ég tek mjög jákvætt í þessa hugmynd.

Ég hef ekki náð að lesa í gegnum alla samgönguáætlun, en ég var búin að skoða þær leiðir sem hafa verið mest í umræðunni hjá okkur þingmönnum Norðvesturkjördæmis og ég er nokkuð ánægð að sjá hvernig þær koma út. Auðvitað vildi maður alltaf að hlutirnir gerðust aðeins hraðar, en það er jákvætt að það er þó ekki verið að fresta hlutunum. Ég er afar ánægð með það.