144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[15:05]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir hennar ræðu. Við erum flest ekki alveg búin að fara í gegnum áætlunina, enda var henni bara dreift í gær, en hv. þingmaður talaði helst um þá staði sem hún þekkir best. Mig langar til að spyrja hana aðeins frekar út í það. Til að vera nákvæmari þá er ég að tala um Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði. Mér er sagt að annað virki í raun ekki nema hitt sé í lagi. Dýrafjarðargöng enda í Arnarfirði og ef heiðin er ekki í lagi þá er vegartálminn þar og öfugt. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún sé búin að skoða þá áætlun sem liggur fyrir, þ.e. hvernig þessar tvær stóru og miklu framkvæmdir tengjast saman í tíma.

Ég sé að í áætluninni eru áætlaðar 400 og 450 milljónir 2017 og 2018 í Dynjandisheiði af 4,5 milljörðum, en mér sýnist Dýrafjarðargöng vera komin talsvert lengra, alla vega miðað við fjármagn. Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji eðlilegt að þessar framkvæmdir klárist saman eða báðar í einu og ég beini því til þeirra sem stýra flæði á fjármagni í þessi tvö verkefni hvort ekki þurfi að hafa þetta til hliðsjónar.