144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[15:09]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég er sammála því að það er gott að byrja á mikilvægum framkvæmdum, en í upphafi skyldi endinn skoða.

Í seinna andsvari mínu langar mig að spyrja þingmanninn um veggjöld eða gjöld fyrir notkun af samgöngumannvirkjum. Hún vék að því í ræðu sinni að hún vildi hóflegt gjald af Sundabraut yrði hún tekin í notkun. Hún sagði einnig, sem ég ætla ekki að draga í efa, að stærstur hluti gangagjaldanna í Hvalfjarðargöngunum væri greiddur af Borgfirðingum, Akurnesingum og fólki sem býr á því svæði. En það er líka vert að benda á að þeir sem helst hafa hagnast af þeirri framkvæmd eru þeir sem hafa greitt mest fyrir hana.

Ég vildi að það kæmi fram hér í umræðunni og langar þá að spyrja hana hvert viðhorf hennar til gjaldtöku af samgöngumannvirkjum sé almennt og þá sérstaklega í ljósi spurninga minna áðan varðandi Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði. Það eru tvær framkvæmdir upp á um það bil 10 milljarða. Er nokkuð óeðlilegt að þeir sem nýta sér slík gríðardýr mannvirki greiði fyrir notkunina á þeim þótt ekki sé nema til þess að greiða framkvæmdina hraðar upp svo að við getum gert fleiri samgöngumannvirki annars staðar á landinu? Það má líka hafa í huga að ef við ætlum að rafvæða eða reyna að draga úr eldsneytisnotkun bílaflotans þurfum við að fá tekjur einhvers staðar að til að mæta því.