144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[15:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú höfum við fengið samgönguáætlun í hendurnar og tími til kominn. Þar er margt sem ég ætla bara að byrja á að lýsa ánægju með, maður á að gera það þegar maður telur eitthvað vera jákvætt og halda því til haga þótt maður gagnrýni annað sem maður telur ekki eins jákvætt, en ég er mjög ánægð með að Dýrafjarðargöngin eru þar inni. Vissulega var maður orðinn óttasleginn um að þau yrðu slegin af en þau eru þarna inni, og framkvæmdir eins og Dynjandisheiði er líka inni þótt dálítið langt sé í það. Hægt er að vera alveg sáttur við ýmislegt þó að ég vilji halda því til haga að framkvæmdafé til vegamála hefur verið skorið allt of mikið við nögl í gegnum árin. Það þarf að halda því í einhverju hlutfalli við landsframleiðsluna því að við erum ekki komin enn þá á þann stað að við séum búin að byggja upp mannsæmandi samgöngur um allt landið. Auðvitað vitum við að ákveðnir landshlutar hafa setið of lengi á hakanum þó að þetta þokist í rétta átt og þar eru Vestfirðir áberandi og eru sá landshluti sem hefur verið langt á eftir öðrum þó að komi staðir eins og nefndir voru hér áðan. Nú eru líka í umræðunni Borgarfjörður eystri og þarf auðvitað að bæta samgöngur við hann. En það er þá bara gott ef menn ætla óhikað að fara í Dýrafjarðargöngin. Fram hefur komið að Dýrafjarðargöng kosta um 7,5 milljarða og reiknað er með að þau verði boðin út á næsta ári og fé til framkvæmda er árið 2017–2018 en árið 2019 vantar upp á 2,9 milljarða til að ljúka þeirri framkvæmd. Maður hefur auðvitað áhyggjur af því að það fé verði ekki til reiðu og ég hefði viljað sjá að lagt yrði meira í þetta strax eins lengi og þetta hefur dregist. Núverandi ríkisstjórn seinkaði þeim framkvæmdum miðað við það sem áætlað var í fyrri samgönguáætlun fyrri ríkisstjórnar, eða fjárfestingaráætlun, og þá hefðu göngin orðið tilbúin 2018. Brýnt er að það fletjist ekki út langt fram í tímann að ljúka þessum brýnu framkvæmdum. Vegurinn yfir Dynjandisheiði er orðinn hátt í 60 ára gamall og hefur fengið mjög lítið viðhald. Reiknað er með að sú vegaframkvæmd kosti í allt 4,5 milljarða og hér eru áætlaðar í þær framkvæmdir árið 2017–2018 850 milljónir og þá vantar rúma 3,6 milljarða til að ljúka þeirri framkvæmd. Það er líka mjög mikilvægt að þetta tvennt haldist í hendur því að við höfum lítið gagn af því að komast í Dýrafjarðargöngin og inn í Arnarfjörð ef við komumst svo ekki lengra. Eina útgönguleiðin þaðan er Dynjandisheiði sem þarf auðvitað að klára samhliða Dýrafjarðargöngunum eins og hér hefur verið nefnt af fleiri ræðumönnum.

Ég er líka ánægð með að þarna sé fé til framkvæmda eins og í Strandasýslu, eins einangraður og Árneshreppurinn er þykir mönnum samt miða ansi hægt áfram á þeim kafla. Þetta þokast þó og veglína í gegnum Teigsskóg, kveðinn var upp úrskurður frá Skipulagsstofnun á dögunum þar um svo maður er orðinn bjartsýnni á að þau mál fari að komast í ákveðinn farveg svo hægt verði að hefja framkvæmdir þar. Eins og ég skil það hjá Vegagerðinni verður það í fyrsta lagi á næsta ári sem hægt verður að hefja framkvæmdir á Vestfjarðavegi 60 og halda áfram uppbyggingu á þeim vegarkafla sem liggur í gegnum það svæði, Gufudalssveitina, og farið verði þá vonandi eftir þeirri nýju veglínu í gegnum Teigsskóg sem mun ekki hafa eins mikið rask í för með sér og fyrri áætlanir.

Hér hefur verið komið inn á marga þætti, bæði það hvort eigi að fara út í einkaframkvæmdir eins og er gefið í skyn að eigi að skoða varðandi Sundabraut. Mér hugnast það ekkert of vel og tel að við eigum ekki að flana að neinu í þeim efnum, það sé margt brýnna miðað við stöðu ríkissjóðs en að fara í Sundabrautina og tvöföldun, 2+2 vegi. Þess vegna er ég ánægð með að hér er verið að tala um 2+1 veg frá Reykjavík til Selfoss, þann kafla sem þar um ræðir. Sérfræðingar hafa látið þá skoðun í ljós, sem komið hafa fyrir umhverfis- og samgöngunefnd í gegnum árin þegar ég sat í þeirri nefnd, og gert okkur grein fyrir því að sú útfærsla væri alls ekki neitt ótraustari en 2+2 og allt sem mælti með því að það væri mjög örugg útfærsla varðandi umferðaröryggi.

Mér finnst líka mikilvægt að almenningssamgöngur séu áfram inni miðað við þann samning sem var gerður á síðasta kjörtímabili til 2016 eða 2018, ég er ekki með það hérna hjá mér. (Gripið fram í: 2018.) 2018. Ég er mjög ánægð með fjármuni þar þótt þeir séu eitthvað lægri en var reiknað með, það er samt ekki held ég til þess að gera stórmál yfir og það er mjög ánægjulegt. Uppbygging almennt eins og komið hefur verið inn á varðandi viðhald vega og tengivega og héraðsvega, þetta hefur því miður drabbast allt of mikið niður og orðið miklu dýrara að fara út í viðhald en annars hefði verið. Það þekkja allir og ég ætla ekki að fara að skammast yfir því að það sé þessum að kenna eða hinum, hér hrundi allt efnahagskerfið fyrir sjö árum og þar á undan var þetta ekki í nógu góðu lagi. Það verður bara að spýta í lófana varðandi uppbyggingu þessara vega, tengivega og héraðsvega um landið vegna þess að þeir skipta gífurlegu máli, bæði fyrir fólkið sem býr í dreifðum byggðum og líka fyrir ferðaþjónustu í landinu sem er orðin stærsti atvinnuvegur landsins varðandi gjaldeyrissköpun. Við þurfum að geta tekið á móti þeirri umferð sem fylgir ferðaþjónustunni, að ferðamenn dreifist sem víðast um landið og hafi möguleika á að skoða þær náttúruperlur sem eru vítt og breitt um landið. Ég legg áherslu á að reynt verði að skoða það betur í umhverfis- og samgöngunefnd, styrkingu á þessum vegum.

Varðandi hafnirnar er því miður langt í frá að þær séu nægjanlega vel fjármagnaðar og ég vil líka að umhverfis- og samgöngunefnd skoði þann þátt betur. Ýmsar framkvæmdir hafa verið komnar vel af stað en nú er ákveðið að ljúka á lengri tíma en áætlað var. Ég tel vera slæmt að það sé dregið allt of langt inn í framtíðina því að það getur eyðilagt fyrir því sem búið er að gera og reynst dýrara þegar upp er staðið.

Aðeins í lokin varðandi þær 1.800 milljónir sem ríkisstjórnin ráðstafaði á dögunum, þá tel ég það ekki vera nógu vönduð vinnubrögð að koma með það sisona inn á þing með þessum hætti. Það ætti auðvitað að fjalla um þessi mál og útfærsluna á þeim innan samgönguráðs og tillögur þar og það eigi að vera Alþingis að útfæra hvernig vegafé er úthlutað og ákveðið í hvaða framkvæmdir það á að fara. Það á ekki að vera gert annars staðar hjá framkvæmdarvaldinu og Alþingi á að fá þetta fjármagn til að vinna með (Forseti hringir.) hvernig farið er með það í einstakar framkvæmdir.