144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[15:44]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla eins og aðrir að byrja á að fagna því að þessi áætlun og plön séu komin til þingsins. Ég hlakka til að takast á við þessa þingsályktunartillögu með þeim sem eru með mér í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég missti því miður af framsögu hæstv. ráðherra, ég hefði viljað spyrja hana nokkurra spurninga en vona að hún hafi tíma til þess að fara yfir eitthvað af þeim punktum sem ég hefði viljað spyrja hana um. Einn þeirra var hvort hún sjái fyrir sér að okkar dýrustu framkvæmdir, eins og jarðgöng á Dynjandisheiði, fari í einkaframkvæmd. Eins hef ég áhyggjur af Vaðlaheiðargöngum, hvort sú framkvæmd muni hafa í för með sér aukinn kostnað. Síðast en ekki síst er það Vestmannaeyjaferjan þar sem búið er, eftir því sem ég les í fréttum, að bjóða út hönnunina og að ég held smíðina, en samt eru ekki neinir peningar í ferjuna næstu þrjú árin.

Virðulegur forseti. Ég hef stuttan tíma og þarf að fara tiltölulega hratt yfir sögu. Ég er með nokkuð marga punkta en eitt af því fyrsta sem ég rak augun í þegar ég las áætlunina er að það er enginn liður um hjólreiðastíga. Ég mun í meðförum nefndarinnar leggja til að þar sem stendur Annað en stofn- og tengivegir komi nýr liður undir sem heitir Hjólreiða- og göngustígar. Ég held að það passi mjög vel inn, þarna eru liðir eins og Smábrýr, Girðingar, Reiðvegir o.fl. Ég held að við þurfum að reyna að færa samgöngukerfið okkar í þá átt að það sé umhverfisvænna og sjálfbærara og horfa þá ekki eingöngu á rafbíla. Hjól sem farartæki geta bæði verið mjög hraðskreið og heilsusamleg og eru sérstaklega hraðskreið ef til þess eru góðar brautir.

Mig langar áður en ég held lengra að fagna því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja 1,8 milljörðum kr. til brýnna verkefna. Þar eru að minnsta kosti fjögur verkefni, Dettisfossvegur, Kjósarskarðsvegur, Uxahryggjavegur og Kaldadalsvegur, verkefni sem voru tilbúin en hafa frestast áður, verkefni sem hefur verið hraðað, og ég held að það sé vel. Á sama tíma ætla ég að vera með léttvæga gagnrýni á það að þetta skyldi ekki hafa komið inn í þá tillögu sem við erum með til umfjöllunar, en tek þó fram að gagnrýnin er léttvæg í samanburði við það jákvæða að við fáum þessa peninga í samgöngumannvirkin.

Hér hefur aðeins verið rætt um Sundabraut. Mínar tilfinningar eru svolítið blendnar. Mér finnst Sundabraut mikilvæg, alla vega er umferðarþungi mjög mikill vegna einkabíla á höfuðborgarsvæðinu og sérstaklega á leiðinni niður í bæ og frá miðbænum seinni partinn og ég tel að hún gæti létt eitthvað á þeim umferðarþunga. Að sama skapi er það þannig að þegar einkabíllinn gengur illa þvingum við fólk ósjálfrátt til þess að nota annan ferðamáta, eins og almenningssamgöngur eða reiðhjól. Ég á lítinn tíma eftir þannig að ég ætla ekki að stoppa lengur við þetta atriði.

Mig langar að minnast á hafnarframkvæmdir. Þær fá mjög litla fjármuni og að mínu viti er þetta sá málaflokkur í þessari áætlun sem verður hvað verst úti. Áætlaðar eru tæpar 800 milljónir í hafnarframkvæmdir frá ríkinu árið 2015 og þar af er Landeyjahöfn með tæpar 400. Þetta finnst mér bagalegt, sérstaklega í ljósi þess að það eru mjög margar hafnir á Íslandi sem eru komnar á tíma, stálþilið er orðið 40 ára gamalt eða meira og þörf á endurnýjun. Þetta er á mörgum stöðum lífæð þeirrar byggðar og jafnvel það eina sem kemur í veg fyrir að byggðin sé flokkuð brothætt.

Ég ætla líka að fagna því að nú er snjómokstur loksins kominn inn á áætlun. Áður var snjómokstur um milljarður á fjáraukalögum. Ég fagna því að loksins sé búið að eyrnamerkja peninga í snjómokstur. Við sjáum að með auknum ferðamannastraumi, sérstaklega þar sem ferðamannastraumur er nú orðinn árið um kring, þurfum við meira viðhald allt árið. Við heyrðum fréttir af því í vetur og veturinn þar á undan að auka þurfti mokstur að vinsælustu ferðamannastöðum okkar. Einnig var Hellisheiði lokuð óvenjumarga daga veturinn sem leið. Af því að ég minnist á Hellisheiði ætla ég að fagna því að þeirri framkvæmd á að ljúka á næstu tveimur árum og jafnframt því að vegarkaflinn milli Selfoss og Hveragerðis verði tekinn fyrir. Ef við berum það saman við Reykjanesbrautina, báðir vegirnir eru gríðarlega umferðarmiklir, hefur ekki orðið banaslys — sjö, níu, þrettán — á Reykjanesbrautinni síðan hún var tvöfölduð. Það segir okkur sitthvað og ég held einkum varðandi vegarkaflann milli Selfoss og Hveragerðis, þar sem eru margar að- og fráreinar eða heimtaugar heim að bæjunum, þar sem er landbúnaður og hægfara vinnuvélar, að mikilvægt sé að við séum með góðar samgöngur þar því að því miður hafa orðið mörg gífurlega alvarleg slys á þeim stutta vegarkafla. Þess vegna tel ég það gríðarlega mikilvægt.

Eitt sem hryggir mig í áætluninni er mál sem ég hef reynt að benda svolítið á, en það eru einbreiðar brýr þar sem hámarkshraði er 90. Ég held að það sé aðeins tímaspursmál hvenær það verður slys á einbreiðum brúm. Ef ég væri ferðamaður erlendis og væri að að keyra á þjóðvegi þess lands ætti ég ekki von á því að einbreið brú væri á veginum. Mér finnst merkingarnar við einbreiðu brýrnar ekki nægilega góðar. Ég held að það ættu að minnsta kosti að vera skilti sem segðu til um að menn ættu að hægja á sér. Ég mun berjast fyrir því að einbreiðum brúm verði fækkað, en þeim hefur fækkað allt of hægt á síðustu árum, og þá sérstaklega þar sem er malbikað og umferðarhraði er 90. Við sjáum tölur, svo ég vitni aftur í ferðaþjónustuna, ferðaþjónustan keyrir á vegum okkar allt árið; rútur, bílaleigubílar og fleiri.

Virðulegi forseti. Tími minn er búinn og ætla ég að ljúka ræðunni á þessum orðum.