144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[16:19]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Samgöngur eru stóra málið og hafa áhrif á alla. Þær eru stærsta byggðamálið, stóra málið í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, stóra málið við þróun menntakerfisins, stóra málið í atvinnuuppbyggingu og þannig mætti lengi telja. Bættar samgöngur eru áhugamál flestra Íslendinga og örugglega allra þingmanna. Við hefðum því öll viljað sjá meira fjármagni varið í samgöngur nú eins og ávallt áður.

Ég er virkilega ánægð með að fá áætlunina fram núna í lok þingsins frekar en að fresta henni til hausts, enda held ég að það sé um fátt meira spurt á ferðum þingmanna en hvenær samgönguáætlun komi. Ég get tekið undir margt sem þegar hefur komið fram í þessari umræðu og hef fullan skilning á nauðsyn vegaframkvæmda um land allt en mun hér einkum tæpa á atriðum sem snúa að því svæði sem ég þekki hvað best, Austurlandi og Norðurlandi eystra.

Ég vil byrja á því að fagna auknum framlögum til snjómoksturs sem ráðherra kom inn á áðan. Það hefur verið algjörlega óviðunandi á síðustu árum að sjá framlög til framkvæmda fara í að greiða fyrir snjómokstur.

Ég gleðst að sama skapi yfir þeim stóru gangaframkvæmdum sem nú standa yfir og eru áætlaðar á næstunni. Ég vil beina því sérstaklega til umhverfis- og samgöngunefndar að fara vandlega yfir hversu mikið fjármagn þarf til rannsókna vegna ganga til Seyðisfjarðar svo að tryggt verði að sem fyrst liggi fyrir nauðsynlegar upplýsingar til að mögulegt sé að taka ákvarðanir varðandi framkvæmdir.

Ég vek athygli á allt of mörgum kílómetrum af ómalbikuðum stofnvegum þar sem ég þekki til, á Héraði, í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði, svo ekki sé talað um ómalbikaða héraðsvegi. Það eru fjórir ómalbikaðir vegarspottar sem ég vil taka sérstaklega út fyrir sviga. Það er þjóðvegur 1 í Berufjarðarbotni sem er á áætluninni og má ekki dragast einu sinni enn. Sem betur fer eru ekki margir þéttbýlisstaðir sem ekki eru tengdir á annan hvorn veginn með malbikuðum vegi, en einn af þeim er í Borgarfirði eystri. Borgarfjarðarvegur er ekki á áætlun fyrr en 2018. Ég vil leggja áherslu á að það verkefni dragist heldur ekki. Síðan mætti nefna Bárðardal og leiðina milli Bakkafjarðar og Þórshafnar, sem er ein af þessum hringtengingum sem okkur vantar. Þar er vegurinn á köflum mjög lélegur og litlir ómalbikaðir bútar virkilega hættulegir. Enn standa víða sveitabæir við umferðarþunga malarvegi sem eru allt sumarið í stöðugum rykmekki frá sívaxandi ferðamannastraumi. Þarna hlýtur að vera hægt að bæta úr með mjög litlum kostnaði.

Þá vil ég vekja athygli á og beina því til umhverfis- og samgöngunefndar að skoða sérstaklega brúna yfir Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði sem var á áætlun en gosið í Holuhrauni setti strik í reikninginn. Það verk þarf að fara í endurmat og endurhönnun. Þetta er verkefni sem þarf að yfirfara miðað við breyttar aðstæður. Eins bíða stórar brúarframkvæmdir við Lagarfljótsbrú og Skjálfandafljót sem eru í sjálfu ekki komnar á áætlun.

Almenningssamgöngur eru það verkefni sem hefur verið í mikilli þróun og endurskoðun síðustu ár eftir að Samband íslenskra sveitarfélaga yfirtóku sérleyfi. Verkefninu hafa fylgt ýmsir vaxtarverkir og gengur það misvel eftir aðstæðum í landshlutum, svo sem vegalengdum, flækjustigi vegakerfisins, farþegafjölda og því hvernig tókst til við skipulag í upphafi. Enn vantar líka einn legg til að tengja almenningssamgöngur allan hringinn. Mitt mat er að við þróun þessa verkefnis hafi nú þegar safnast dýrmæt reynsla og þekking sem mikilvægt er að byggja á til framtíðar. Ég vil því hvetja til þess að þróun og uppbygging almenningssamgangna haldi áfram og flugið þarf að tengjast almenningssamgöngunum betur.

Þá er að lokum eitt mál sem ég vil koma inn á. Það er hvernig staðið er að ákvörðunum um að taka héraðsvegi af vegaskrá. Kveðið er á um það í reglugerð 774/2010. Ég held að í tengslum við umfjöllun um vegáætlun sé mjög mikilvægt fyrir umhverfis- og samgöngunefnd að fara yfir það mál því að þótt vegirnir séu lagðir fyrir eiganda, atvinnustarfsemi eða húsnæðis þá þjóna þeir oft fleirum.