144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[16:25]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að samgönguáætlun er komin fram og að við getum farið að ræða hana hér. Mörgu ber að fagna í henni. Ég nýt þess heiðurs að vera í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og fæ þá að fjalla um málið þar og því ætla ég ekki að fara að tína til einstök verkefni. Mig langar samt að koma inn á nokkur atriði varðandi samgönguáætlun sem ég tel vera gríðarlega mikilvæg.

Samgönguáætlun fjallar um tvennt í mínum huga, annars vegar öryggismál í víðu samhengi, þá sérstaklega umferðaröryggi en einnig öryggi fyrir byggðirnar í landinu, og hins vegar samfélagsmál hvað varðar uppbyggingu samfélagsins.

Á ári hverju verjum við 24 milljörðum í samgöngumál, samkvæmt þessari áætlun. Reiknað hefur verið út hvað umferðarslys kosta okkur á ári og eru það um 30 milljarðar. Ef við setjum það í samhengi þá held ég að við verðum að forgangsraða og setja meiri fjármuni í samgöngumál í framhaldinu til að draga úr þeim mikla slysakostnaði sem við stöndum frammi fyrir. Þannig munum við spara fjármuni til framtíðar en fyrst og fremst bæta lífsskilyrði í landinu til muna, sem ég tel vera mjög mikilvægt. Því vil ég kanna hvort við getum ekki haft þessi umferðaröryggismál svolítið sýnilegri í áætluninni og gert þau markvissari. Til dæmis væri hægt að færa ákvarðanatökuna um hvernig við bætum umferðaröryggi heim í hérað.

Við erum með umferðaröryggisáætlun núna sem er mjög gott og gilt plagg og hefur skilað miklum árangri og fært umferðaröryggismál upp á allt annað plan. Ef við tækjum það lengra og byggjum til undirnefndir sem ynnu að umferðaröryggismálum heima í héraði og forgangsröðuðu þá yrði árangurinn mældur í fækkun slysa. Þá gætum við sett það sýnilega fram hvað við spöruðum mikla fjármuni með því. Að sjálfsögðu þurfum við svo að halda áfram samfélagslegri uppbyggingu til að tryggja byggðir landsins. Þetta er eitt hið mikilvægasta í því og munum við ræða það frekar í nefndinni.

Mig langar að nefna eitt varðandi umferðaröryggismálin og hvernig er hægt að fækka slysum með samgönguáætlun. Frá því tvöföldun á Reykjanesbraut var sett inn í samgönguáætlun og hafist framkvæmda hefur enginn látist þar í bílslysi en á sama tíma hafa 14 látist á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Við værum búin að bjarga 14 mannslífum ef við hefðum sett aukna fjármuni strax á þessum tíma í Vesturlandsveg og Suðurlandsveg. Þetta er mjög brýnt.

Einnig langar mig að nefna hér hafnamál því að ég hef verið að tala um að samgönguáætlun sé samfélagsmál líka. Hafnamál eru ekki á allra vörum og flestir peningarnir sem í þau fara fara í framkvæmdir undir sjávarmáli þannig að það er ekki sýnilegt hversu gríðarlega mikilvæg þau eru. Fjöldi hafna er kominn til ára sinna og þarf mikið viðhald. Hafnir eru eiginlega lífæðar margra sveitarfélaga. Ef notkun hafnanna er ekki tryggð þannig að öruggt sé að skip geti siglt inn í hafnarmynnið og lagst við bryggju geta heilu vinnustaðirnir eða nánast öll atvinna í heilu bæjarfélögum orðið undir, eins og við sjáum á Höfn í Hornafirði núna þegar höfnin er að lokast fyrir uppsjávarskipum og minni skipum.

Rétt í lokin langar mig líka að minnast á flugmálin. Þar held ég að við þurfum að finna nýjar leiðir. Núna koma einhverra hluta vegna ekki ný verkefni inn á flugvelli landsins þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna. Ferðamönnum hefur fjölgað hátt í milljón og samt eykst ekki farþegafjöldi í innanlandsflugi. Ég held að við þurfum að finna leiðir til þess að færa rekstur flugvallanna til sveitarfélaganna, ferðaþjónustunnar og einkaaðilanna sem munu markaðssetja innanlandsflugið og finna leiðir til þess að nýta vellina betur og fjölga farþegum og þannig getum við gert reksturinn hagkvæmari.

Samgönguáætlun snýst um þessi þrjú atriði, umferð, hafnamál og flugmál, sem eru öll mjög mikilvæg fyrir byggðir landsins og öryggi. Það er verkefni okkar að forgangsraða í okkar vinnu fjármunum til þess að þetta geti allt saman eflst og þá mun velsæld þessa samfélags aukast til muna.