144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur auðvitað vakið athygli þetta undarlega mál hv. þm. Höskuldar Þórs Þórhallssonar um að taka skipulagsvaldið af Reykjavík. Það er ótrúlegt að það skuli gerast hér á nokkrum mínútum í nefnd að skipulagsvald sé tekið af sveitarfélögum sem fá ekki einu sinni að bera hönd fyrir höfuð sér, á Akureyri og Egilsstöðum. Það er nú ósköp einfaldlega þannig að það hefði verið eðlilegt að kalla fulltrúa þessara sveitarfélaga til. Það er stjórnarskrá í landinu, hún tryggir sveitarfélögum sjálfsákvörðunarrétt.

Ég hlýt að biðla enn einu sinni til hæstv. forseta um að fara nú að reyna að hafa stjórn á þeim formdólgum sem vaða hér uppi í þinginu og brjóta allar reglur holt og bolt. Það er stjórnarskrá í landinu sem mælir fyrir um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Það er ekki hægt að taka vald af sveitarfélögum án þess að leyfa þeim einu sinni að tjá sig, á nokkrum mínútum, án umræðu í þingnefnd.

Virðulegi forseti. Forustufólk á Akureyri hefur mátt þola það undanfarin ár, það hefur til dæmis verið ágreiningur þar um línulagnir. (Forseti hringir.) Hvaða fordæmi er verið að skapa hér núna ef þingið stekkur til og tekur skipulagsvaldið af sveitarfélagi?