144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Nú þegar við förum vonandi að sjá fyrir endann á þessu þingi og menn eru frekar að reyna að vanda sig í samskiptum milli stjórnar og stjórnarandstöðu kemur þetta forkastanlega mál hér og er rifið út úr nefnd með fulltingi manna sem ekki hafa verið í umræðu um málið á neinu stigi þess. Ekki er nóg með það að það sé tekið skipulagsvald af þremur sveitarfélögum í stað eins, eins og málið var lagt út til umsagnar um eitt sveitarfélag, Reykjavíkurborg, sem fékk bæði að setja inn umsagnir og mæta á fund nefndarinnar, heldur fær nefndin það nú til umfjöllunar á tíu mínútum að tveimur sveitarfélögum sé bætt við. Og hvert á skipulagsvaldið að fara, virðulegur forseti? Á það að fara til ráðherra skipulagsmála? Nei, það á að fara til innanríkisráðherra. Mér þætti fróðlegt að heyra hvort hæstv. innanríkisráðherra sé meðvituð um það að hún sé í þann veginn að fara að búa til sérstaka skrifstofu um skipulagsmál á flugvöllum á Íslandi.